Miklar hækkanir á hrávöru og matvælum á heimsmarkaði snerta flesta þætti daglegs lífs. Ekki sér fyrir endann á þessum hækkunum og margir óttast launþegar sem grípa sér fljótan hádegismat á ferðinni verði barðinu á þeim á komandi misserum.
Breska blaðið Financial Times fjallaði um málið á dögunum og beindi sjónum sínum sérstaklega að svokölluðum BLT-samlokum. Slík samsetning á samlokum nýtur vinsælda um heim allan en skammstöfunin stendur fyrir beikon, kál og tómata á enskri tungu. Samkvæmt greiningu blaðsins þá verðið á hráefnum í slíkar samlokur hækkað um 56% frá því í janúar árið 2019.
Gríðarlegar hækkanir á sólblómaolíu vegna innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu er ekki eini áhrifaþátturinn í þessu samhengi. Þannig hefur verð á hveiti og tómötum hækkað um 63% frá ársbyrjun 2019 á meðan að meðalverð á kálhausum hefur hækkað um fjórðung.
Auk þessa hafa fyrirtæki sem fjöldaframleiða slíkar samlokur í Bretlandi þurft að takast á við hærri launakostnað vegna umframeftirspurnar eftir starfsfólki og orkukostnað á undanförnum árum. Financial Times hefur eftir Jim Whinship, framkvæmdastjóra Bresku samloku- og skyndibitasamtakanna (e. British Sandwich and Food To Go Association), að samlokur séu veigamiklum atriðum ákveðin loftvog sem sýnir hvernir vindar blása í hagkerfinu. Í ljósi þess mega neytendur eiga von á miklum hækkunum á máltíðum á borð við samlokur.
Samkvæmt Financial Times þá hafði verð á tilbúnum samlokum sem eru seldar í verslunum hækkað um 8% í febrúar miðað við sama tíma í fyrra. Sé tekið tillit til þess að neytandi kaupi sér jafnframt drykk til að skola niður samlokunni og lítinn snakkpoka í eftirrétt þá hefur hádegisverðurinn hækkað á bilinu 5-16% á sama tímabili. Þeir sérfræðingar sem blaðið ræddi við eru sammála um að þetta sé einungis byrjunin á þróun sem mun leiða til hærra verðlags.
Eigi að síður hefur verð á svínakjöti ekki hækkað með sama hætti og heldur því beikonið að einhverju leyti niður verðlaginu á BLT-samlokunni í Bretlandi. Þannig beinlínis lækkaði verð á svínakjöti í Evrópu í fyrra vegna takmarkana á útflutningi til Kína. Auk þess er alisvínastofninn í sögulegu hámarki í Bretlandi vegna starfsmannaskorts í sláturhúsum. Þrátt fyrir það eru teikn á lofti að verð á svínakjöti fari hækkandi. Evrópskir svínabændur hafa skorið niður og á sama tíma hafa hækkanir á aðföngum skapað þrýsting á verð á svínakjöti.