Af samningum á opinbera vinnumarkaðnum er það helst að frétta að forsvarsmenn BSRB, BHM og KÍ eru byrjaðir að funda í húsakynnum ríkissáttasemjara með samninganefndum sveitarfélaga og ríkisins.
Fyrir skömmu var greint frá því að samtökin þrjú hygðust ganga saman til kjaraviðræðna um ákveðna meginþætti kjarasamninga. Af þeim 63 samningum sem losna í lok næsta mánaðar eru um 30 við aðildarfélög þessara þriggja samtaka og ná þeir til um 42 þúsund launamanna á opinberum vinnumarkaði.
Hjá KÍ renna samningar um 5.400 grunnskólakennara út og um 2.400 leikskólakennara. Ennfremur losna samningar um 1.700 framhaldsskólakennara og 90 stjórnenda í framhaldsskólum, sem og um 500 kennara og stjórnenda í tónlistarskólum landsins. Samtals eru því ríflega 10 þúsund, af um 11 þúsund launamönnum í aðildarfélögum KÍ, að verða samningslausir eftir rúman mánuð. Í lok september renna síðan út samningar Skólastjórafélags Íslands og Félags stjórnenda í leikskólum.
Hjá BHM eru aðildarfélögin 27 talsins og í þeim eru samtals 16 þúsund félagsmenn. Samningarnir sem losna í lok næsta mánaðar ná til um 12 þúsund félagsmanna. Af þeim er Fræðagarður stærsta aðildarfélagið en félagsmenn þess telja um 2.300 manns. Fræðagarður er stéttarfélag háskólamenntaðra óháð starfsvettvangi eða sérhæfingu.
Af þeim þremur samtökum, sem eru í samfloti í samningaviðræðunum núna, er BSRB stærst. Alls eru aðildarfélögin 19 talsins og félagsmenn þeirra um 23 þúsund. Kjarasamningar meirihluta aðildarfélaga BSRB losna 31. mars og ná þeir samningar til um 20.500 félagsmanna. Flestir þeirra eru í Sameyki, eða um 12.000 manns.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast fréttaskýringuna hér.