Samninganefndir Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB undirrituðu í morgun nýjan kjarasamning eftir meira en sólarhringslangar viðræður sem staðið höfðu yfir fram á síðastliðna nótt.
Þar með lýkur tæplega mánaðarlöngum verkfallsaðgerðum BSRB sem frá því á mánudag hafa verið víðtæk og ótímabundin. Um 2.500 manns hafa síðan þá verið í verkfalli í 30 sveitarfélögum.
Samkvæmt samningnum – sem gildir út mars á næsta ári – hækka laun um 35 þúsund krónur á mánuði en því til viðbótar felur hann í sér 131 þúsund króna desemberuppbót og 105 þúsund króna eingreiðslu, en síðastnefnda atriðið var það sem bættist við í nótt og varð til þess að samningsaðilar náðu saman.
Eins og venja er þurfa félagsmenn stéttarfélagsins að samþykkja samninginn í atkvæðagreiðslu til að hann taki endanlega gildi og mun hún standa yfir til 19. júní næstkomandi.