Fagfélögin – Rafiðnaðarsambandið, Matvís og VM – hafa gert langtímasamning við Samtök atvinnulífsins (SA) í takt við samning Breiðfylkingarinnar svokölluðu.

Frá þessu var greint á vef SA í dag og því hampað að „með undirritun samningsins í dag [hafi] SA samið við drjúgan hluta félaga á almennum vinnumarkaði,“ en aðeins VR stendur nú eftir meðal stærri stéttarfélaga á þeim markaði eftir að hafa slitið sig frá Breiðfylkingunni skömmu áður en samningar náðust vegna ágreinings um forsenduákvæði.

Flöt 24 þúsund króna árleg hækkun upp að 730 þúsund

Samningurinn við Fagfélögin er í meginatriðum samhljóða þeim við Breiðfylkinguna frá því á fimmtudaginn og spannar sama fjögurra ára tímabil; frá upphafi síðasta mánaðar til janúarloka 2028.

Laun hækka um 23.750 krónur eða 3,5%, hvort heldur sem er hærra, á ári hverju að undanskildu því fyrsta þegar hlutfallið er 3,25%. Það þýðir að fyrsta árið fá launþegar undir 731 þúsund krónum á mánuði áðurnefnda flata krónutöluhækkun, en yfir því fer prósentan að skila meiri hækkun, og þau mörk lækka svo í 679 þúsund það sem eftir lifir samningsins. Þá eru ákvæði um kauptaxta- og framleiðniauka rétt eins og í samningi SGS, Eflingar og Samiðnar.

Vaktaálag og vinnutímar í vaktavinnu breytast einnig auk þess sem lágmarkslaunataxtar sveina verið samræmdir. Lágmarksorlof hækkar í 25 daga strax næsta sumar, og frá og með maí á næsta ári hækkar það síðan í 28 daga eftir 3 ár hjá fyrirtæki eða 5 í starfsgrein, og loks 30 daga eftir 5 ár hjá sama fyrirtæki.

Vilja sjá verðbólguna undir 5% innan 18 mánaða

Loks er þar svo að finna sömu forsenduákvæði og í Breiðfylkingarsamningnum en með þeim er svokallaðri forsendunefnd falið að „fylgjast með framvindu þátta í efnahagslífinu sem hafa áhrif á markmið samningsins“, leggja formlegt mat á forsendur hans og semja um viðbrögð telji hún þær brostnar.

Fyrst og síðast verður þar horft til verðbólguþróunar þar sem lagt er upp með að 12 mánaða verðbólga skuli vera komin undir 4,95%, eða 6 mánaða verðbólga á ársgrundvelli undir 4,7%, þann 1. september á næsta ári, og 4,7% og 4,4% sama dag á því þarnæsta.

Rafiðnaðarsambandið eru samtök félaga, Matvís er félag iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum og VM eru vélstjórar og málmtæknimenn.