Verkalýðsfélag bandarískra handritshöfunda, Writers Guild of America, segist hafa náð bráðabirgðasamkomulagi við framleiðendur sem gæti bundið enda á rúmlega fimm mánaða löngu verkfalli sem hófst í sumar.

Verkfallið er það lengsta sem sést hefur í kvikmynda- og sjónvarpsframleiðsluiðnaðinum í Hollywood í áratugi.

Samkvæmt Kevin Klowden, aðalhagfræðingi Milken Institute, hefur verkfallið kostað bandaríska hagkerfið um 5 milljarða dali frá því það hófst 2. maí síðastliðinn. Deilan hefur haft áhrif á framleiðslu þátta á borð við The Last of Us, Stranger Things og Yellowjackets.

Handritshöfundar segja að auk launamála þá sé mikill ótti um þau áhrif sem gervigreind mun hafa á iðnaðinn.

Samningaviðræður hafa einnig slitnað út af greiðslum sem rithöfundar fá fyrir vinsæla streymisþætti en þeir hafa kvartað yfir því að þær upphæðir séu aðeins brot af því sem þeir fengu fyrir þætti sem birtust í sjónvarpinu.

Upprunalega fengu rithöfundar aukagreiðslur þegar þættir sem þeir skrifuðu voru endursýndir í sjónvarpinu. Það líkan leið undir lok með aðkomu streymisveitna en tiltekin upphæð var eyrnamerkt til að koma til móts við það tekjutap.

„Það sem er eftir núna er að starfsfólk okkar tryggi að allt sem við höfum samþykkt sé lögfest á endanlegu samningsmáli,“ segir í tilkynningu frá verkalýðsfélaginu.