Styrkás og eigandi Krafts ehf. hafa komist að samkomulagi um að fella niður kaupsamning um kaup á 100% hlutafjár í Krafti ehf.

Samrunatilkynning til Samkeppniseftirlitsins hefur verið afturkölluð. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Samkeppnisyfirvöld féllust ekki á þær markaðsskilgreiningar sem aðilar og ráðgjafar þeirra telja að leggja eigi til grundvallar við rannsókn á samruna félagsins.

Þær markaðsskilgreiningar byggðu á markaðsskilgreiningum sem eiga stoð í framkvæmd hjá Framkvæmdastjórn ESB og samkeppnisyfirvöldum á Norðurlöndum, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Í júlí 2024 tilkynnti Styrkás um fyrirhuguð kaup á 100% hlutafjár í Krafti ehf., sem er söluaðili MAN, Palfinger og Bucher-Municipal á Íslandi.

Velta Krafts árið 2023 nam 2 milljörðum króna og hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 180 milljónum króna. Kaupsamningurinn var meðal annars gerður með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda.

Styrkás hf er í eigu SKEL fjárfestingarfélags hf., Horns IV slhf., framtakssjóðs í stýringu Landsbréfa, Máttarstólpa ehf. í eigu Ásgeirs Þorlákssonar og starfsmanna.

Innan samstæðu félagsins í dag eru meðal annars fyrirtækin Skeljungur, Klettur og Stólpi Gámar sem eru leiðandi félög á sínum sviðum.

Hagnaður samstæðufélaga Styrkáss fyrir afskriftir (EBITDA) nam samtals 2,6 milljörðum króna árið 2023 og hagnaður var 1,2 milljarðar króna eftir skatta. Hluthafar ætla að skrá alla hluti í félaginu á skipulegan markað í Kauphöll Íslands fyrir árslok 2027.