Töluvert hefur gustað um Kviku banka síðustu misseri. Bankinn keypti tryggingafélagið TM árið 2021 en seldi það til Landsbankans á þessu ári. Í byrjun árs í fyrra hófust samrunaviðræður Kviku banka og Íslandsbanka en Kvika sleit þeim sumarið 2023.

Í ágúst 2023 lét Marinó Örn Tryggvason af störfum sem forstjóri Kviku og Ármann Þorvaldsson tók við stöðunni. Ármann lýsti því í fjölmiðlum að hann hefði ekki áhuga á að endurvekja samrunaviðræður við Íslandsbanka.

Bréfaskriftir Jóns

Stoðir eru stærsti einkafjárfestirinn í Kviku banka, sem og Arion banka. Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, hefur reglulega sent hluthöfum Stoða bréf, þar sem hann fer yfir fjárfestingar félagsins og stöðuna.

Í byrjun ágúst sendi hann hluthöfum slíkt bréf, þar sem honum varð tíðrætt um það hvort ekki væru tækifæri til aukinnar hagræðingar á fjármálamarkaðnum. Talaði hann um að þungt regluverk og aukin erlend samkeppni kallaði á meiri stærðarhagkvæmni.

Hlutabréfaverð hækkar

Íslenski fjármálamarkaðurinn er lítill og yfirlýsingar sem þessar geta haft töluverð áhrif á hann. Eftir þetta bréf Jóns til hluthafa hafa vangaveltur um mögulegar samrunaviðræður Arion banka og Kviku banka fengið byr undir báða vængi.

Ekki nóg með það heldur hafa hlutabréf í Kviku banka hækkað um ríflega 10% síðan Jón sendi bréfið og hlutabréfaverð í Arion banka um tæplega 7%. Á sama tíma hefur úrvalsvísitalan einungis hækkað um 1,6%.

Þess ber að geta að orðrómur um kaup Arion banka á Kviku var farinn af stað töluvert áður en Jón sendi bréfið. Ýmsir hafa spáð því í gegnum tíðina að það gæti komið til þess að Arion og Kvika sameinist. Bankarnir eru báðir öflugir á sviði fjárfestingarbankastarfsemi.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og efni blaðsins hér.