Í Viðskiptablaði vikunnar er fjallað um háværan orðróm á fjármálamarkaði um að gagnkvæmur áhugi sé á samrunaviðræðum milli Arion banka og Kviku.
Forstjóri Stoða, stærsta einkafjárfestisins í hluthafahópum beggja banka, ítrekaði í sumar skoðun sína að þörf sé á frekari hagræðingu á íslenskum fjármálamarkaði. Í bréfi til hluthafa sagði hann ljóst að sífellt meira íþyngjandi regluverk og aukin erlend samkeppni kalli á meiri stærðarhagvæmni í bankageiranum.
Í Viðskiptablaði vikunnar er fjallað um háværan orðróm á fjármálamarkaði um að gagnkvæmur áhugi sé á samrunaviðræðum milli Arion banka og Kviku.
Forstjóri Stoða, stærsta einkafjárfestisins í hluthafahópum beggja banka, ítrekaði í sumar skoðun sína að þörf sé á frekari hagræðingu á íslenskum fjármálamarkaði. Í bréfi til hluthafa sagði hann ljóst að sífellt meira íþyngjandi regluverk og aukin erlend samkeppni kalli á meiri stærðarhagvæmni í bankageiranum.
Salan á TM gæti liðkað fyrir samrunanum
Í aðdraganda þess að Kvika banki og Íslandsbanki hófu formlegar samrunaviðræður í febrúar 2023 hafði verið skoðað að hefja viðræður um mögulegan samruna Arion og Kviku.
Skiptar skoðanir voru innan stjórnar Arion um fýsileika þess að sameinast Kviku, þar sem erfitt yrði að uppfylla stíf skilyrði sem Samkeppniseftirlitið myndi setja slíkum samruna, að því er kom fram í umfjöllun Innherja frá febrúar 2023. Þau sjónarmið byggðu m.a. á skörun á eignastýringa- og tryggingastarfsemi bankanna.
Sala Kviku á TM tryggingum til Landsbankans fyrir 28,6 milljarða króna kann að einfalda mögulegan samruna Kviku og Arion en síðarnefndi bankinn á tryggingafélagið Vörð. Kaupsamningur um kaup Landsbankans á TM af Kviku var undirritaður í lok maí að lokinni áreiðanleikakönnun. Bankinn mun taka við rekstri TM að fengnu samþykki frá Samkeppniseftirlitinu og Fjármálaeftirlitinu.
Tengsl milli lykilstjórnenda
Þess má geta að tengsl eru milli bankanna þegar kemur að lykilstjórnendum. Þar ber helst að nefna að Benedikt Gíslason, forstjóri Arion, starfaði um tíma sem framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs MP banka, forvera Kviku, og Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, starfaði lengi í framkvæmdastjórn Kaupþings, forvera Arion.
Þá störfuðu Benedikt og Sigurður Hannesson, stjórnarformaður Kviku, náið saman sem varaformenn framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.