Á hluthafafundi Bláa Lónsins í dag var samþykkt að stofna sérstakt eignarhaldsfélag utan um samstæðu félagsins. Nýja eignarhaldsfélagið mun bera nafnið Bláa Lónið hf. en starfsemi félagsins í Svartsengi mun nú fá nafnið Bláa Lónið Svartsengi ehf.
Hluthafar í nýju eignarhaldsfélagi eru þeir sömu og voru hluthafar í því félagi sem nú er Bláa Lónið Svartsengi ehf.
Í tilkynningu eru breytingarnar sagðar liður í áætlun félagsins um að einfalda skipulag, skerpa sýn og auka hagkvæmni í rekstri félaga samstæðunnar en starfsemin hafi orðið fjölþættari síðustu misseri.
Félagið hefur nýlokið uppbyggingu hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum, fyrirhugar framkvæmdir í Þjórsárdal og leggur nú aukna áherslu á markaðssetningu húðvara félagsins erlendis.
Eftirfarandi félög eru innan samstæðu Bláa Lónsins hf. og munu þau öll verða að fullu í eigu hins nýja eignarhaldsfélags eftir breytingarnar:
- Bláa Lónið Svartsengi ehf. – Félagið annast allan rekstur í Svartsengi. Undir hann fellur baðstaðurinn Bláa Lónið, hótelin Silica og The Retreat, heilsulindin Retreat Spa, veitingastaðirnir Lava, Retreat Spa Restaurant og Michelin staðurinn Moss auk Blue Café. Þá fellur einnig undir reksturinn Lækningalind félagsins og Rannsókna- og þróunarsetur.
- Íslenskar Heilsulindir ehf. – Eignarhaldsfélag um hluti í öðrum baðstöðum og ýmis þróunarverkefni, þar með talið uppbyggingu félagsins í Kerlingarfjöllum og Þjórsárdal.
- Blue Lagoon Skincare ehf. – Félagið annast þróun, framleiðslu og sölu húðvara innanlands og erlendis.
- Blue Lagoon Journeys ehf. – Þróunarfélag um aðra afþreyingartengda þjónustu innan samstæðunnar.
- Eldvörp ehf. – Félagið rekur allar fasteignir félagsins.
Skráningu frestað fram á næsta vor
Bláa lónið tilkynnti í nóvember 2022 um áform um skráningu félagsins á aðalmarkað Kauphallarinnar í ár. Félagið hefur frestað fyrirhugaðri skráningu og er nú horft til vorsins 2024.
„Með því er tryggt að ofangreindar skipulagsbreytingar verði að fullu komnar til framkvæmda auk þess að heilt rekstrarár, eftir COVID-19, liggi fyrir. Endanleg tímasetning mun þó ráðast af markaðsaðstæðum og framvindu undirbúningsvinnu.“
Bláa lónið segir að reksturinn hafi gengið vel það sem af er ári. Innan samstæðunnar starfa um 800 manns.
Stærstu hluthafar Bláa lónsins í árslok 2022.
Eignarhlutur |
39,6% |
36,2% |
11,1% |
7,3% |
2,4% |
1,1% |