Samtal milli stjórnvalda og sjávarútvegs hefur dottið niður, að mati Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims.
Í ávarpi sínu í ársskýrslu fyrirtækisins segir hann stjórnvöld hafa fjarlægst greinina og takmarkað samskipti um málefni hennar.
„Samtal á milli stjórnvalda og okkar í greininni um framtíðarsýn og eflingu sjávarútvegs hefur dottið niður. Samtal á milli Alþingis og starfsfólks sjávarútvegsráðuneytisins við fólk í sjávarútvegi, m.a. um breytingar á lögum eða útfærslur á nýjum lögum og reglugerðum er horfið,“ segir Guðmundur.
Hann bendir á að áður hafi stjórnvöld unnið að eflingu greinarinnar í nánu samstarfi við hana, en sú nálgun hafi horfið.
Jafnframt gagnrýnir hann að ráðherra sjávarútvegs styðjist nær eingöngu við Hafrannsóknarstofnun við ákvarðanir um nýtingu fiskistofna, en hafi ekki samtal við aðra hagaðila.
„Á síðasta áratug hefur ráðherra sjávarútvegs æ oftar ákveðið að fara að mestu að tilmælum sinnar undirstofnunar varðandi nýtingu fiskistofna en ekki átt samtal við aðra hagaðila eða tekið tillit til annarra sjónarmiða,“ segir hann.
Hann segir að síður hafi verið hlustað á eða haft samstarf við forystufólk sjávarútvegsfyrirtækjanna eða skipstjóra fiskiskipanna um þessar mikilvægu ákvarðanir.
Að mati Guðmundar er þessi þróun ekki í samræmi við siðareglur FAO um ábyrgð í fiskimálum og er að mati Brims áhyggjuefni fyrir íslenska þjóð.
Sérskattar letja fjárfestingu
Guðmundur telur að umræðan um sjávarútveg hafi verið neikvæð og byggi á úreltum hugmyndum um greinina. „Oft finnst okkur að sérfræðingarnir, álitsgjafarnir, embættis- og fjölmiðlamennirnir og pólitíkusarnir tali meira um okkur en við okkur,“ segir hann og bætir við að oft skorti innsæi og þekkingu á starfsemi greinarinnar í dag.
Að lokum varar hann við frekari sérsköttum á sjávarútveg, sem hann segir letja fjárfesta og veikja stöðu greinarinnar.
Hann hvetur stjórnvöld til að endurvekja samtalið við sjávarútveginn „þó ekki væri til annars en að auka fyrirsjáanleika og rekstraröryggi“.
Rekstur traustur þrátt fyrir mótvind
Í ávarpinu fer Guðmundur einnig yfir rekstur Brims á síðasta ári og þær áskoranir sem félagið hefur mætt.
Hann bendir á að engar heimildir hafi verið gefnar út til loðnuveiða á árinu og lengst af hafi ekki verið heimilt að veiða djúpkarfa.
Jafnframt hafi íslensk stjórnvöld, ein stjórnvalda við Norður-Atlantshaf, takmarkað nýtingu íslenskra útgerða á þorskveiðiheimildum í rússneskri lögsögu í Barentshafi. Veiðar á kolmunna gengu ágætlega en makrílveiðar voru dræmar.
Þrátt fyrir erfiðar aðstæður gekk vinnsla bæði botnfisks og uppsjávarafurða vel. „Þrátt fyrir ólgu á mörkuðum ytra og óvissu var verð á botnfiski viðunandi og verð á frystum makríl og síld hækkaði og sala gekk vel,“ segir Guðmundur. Verð á mjöli og lýsi var einnig hátt, þó að verð á lýsi hafi lækkað undir lok ársins.
Guðmundur segir rekstur Brims standa á traustum grunni, þó að minni aflaheimildir hafi dregið úr tekjum og hagnaði. „Afkoman var ekki ásættanleg í ljósi þeirra fjármuna sem bundnir eru í rekstrinum“, segir hann en bendir á að fjárfestingar félagsins í dóttur- og hlutdeildarfélögum hafi styrkt það.
Eignastaða félagsins var sterk í árslok 2024, með heildareignir upp á 143,3 milljarða króna og bókfært eigið fé upp á 70,3 milljarða króna.
Treystir á náttúruauðlindir og mannauð
Guðmundur segir Brim leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og ábyrgð í umhverfis- og loftslagsmálum. Félagið hefur sett sér markmið um 40% minni losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, miðað við verðmætasköpun.
Guðmundur bendir einnig á mikilvægi mannauðs í fyrirtækinu. „Hjá félaginu og dótturfélögum starfa um 630 manns af 24 þjóðernum.
Starfsfólkið býr yfir mikilli reynslu og er meðalstarfsaldur um 10 ár“, segir hann og leggur áherslu á öryggi og vellíðan starfsfólks. Brim hefur stofnað Brimskólann til að efla menntun og starfsþróun og býður meðal annars íslenskukennslu á vinnustað fyrir erlenda starfsmenn.
Að lokum leggur Guðmundur áherslu á að sjávarútvegur þurfi stöðugan rekstrargrundvöll til að tryggja áframhaldandi verðmætasköpun.
„Það er von mín að okkur takist að eiga samtal við stjórnvöld um leiðir til þess og að umtalið um sjávarútveg í íslensku samfélagi verði um framtíð en ekki fortíð,“ segir hann.