Verði frumvarp atvinnuvegaráðherra um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á skiptingu á aflahlutdeild á Íslandi að lögum myndi hlutdeild þriggja stærstu útgerðarfélaga myndi aukast um 11 prósentustig, úr 68,4% í 79,6%, samkvæmt nýrri greiningu Arev verðbréfafyrirtækis.
„Greiningin varpar ljósi á miklar breytingar sem yrðu á mælingu á samþjöppun kvóta ef frumvarpið nær fram að ganga,“ segir á vef Arev. Bent er á að frumvarpið hafi farið í gegnum fyrstu umræðu og er nú fyrir atvinnuveganefnd.
Í frumvarpinu er að finna ákvæði sem kveður á um að eignarhald eins útgerðaraðila á 20% eða meira í öðrum útgerðaraðila skuli telja til viðbótar með hlutdeild þess fyrrnefnda sem jafngildir eignarhaldinu í þeim síðarnefnda.
Breytingin myndi þannig t.d. hafa veruleg áhrif á aflahlutdeild Útgerðarfélags Reykjavíkur (ÚR), stærsta hluthafa Brims með 44% hlut, og Samherja, stærsta hluthafa Síldarvinnslunnar með 30% hlut.
Áréttað er að í greiningunni er ekki er tekið tillit til áhrifa annarra breytinga í frumvarpinu sem varða skyldleika (einn legg til hliðar) og yfirráða (skilgreining samkeppnislaga). Arev hyggst birta aðra greiningu vegna þessara þátta síðar.
Myndi almennt vekja athygli samkeppnisyfirvalda
Mæld samþjöppun á markaði á mælikvarða Herfindahl-Hirschman vísitölunnar (HHI) myndi aukast um 32%, og hækka þannig úr 555 í 732.
„Þrátt fyrir að báðar tölur (fyrir og eftir frumvarp) séu undir 1.000 mörkum, þá verður 32% aukning á mælingu á samþjöppun miðað við boðaðar breytingar í nýju frumvarpi. Svo mikil aukning myndi almennt vekja athygli samkeppnisyfirvalda ef um væri að ræða samruna fyrirtækja,“ segir í greiningu Arev.
„Þó að hlutdeild skv. frumvarpi yrði enn undir því sem telst mikil samþjöppun, þá er aukning hennar umtalsverð. Þetta vekur upp spurningar um langtímaáhrif á markaðinn og hvort frekari samþjöppun gæti átt sér stað á komandi árum.“
Hlutdeild ÚR meira en tvöfaldast
Arev birtir fyrirséðar breytingar á hlutdeild stærstu útgerðarfyrirtækja landsins, verði frumvarpið að lögum. Aflahlutdeild fimm stærstu fyrirtækja myndi aukast um 7,9 prósentstig, úr 45,8% í 53,6%. Mesta aukningin er hjá eftirfarandi félögum:
- Útgerðarfélag Reykjavíkur: +5,4 prósentustig (úr 3,5% í 8,9%)
- Samherji: +3,6 prósentustig (úr 8,6% í 12,2%)
- FISK-Seafood: +1,9 prósentustig (úr 6,3% í 8,2%)
- Brim: +0,3 prósentustig (úr 12,2% í 12,2%)
Nálgast má gagnvirka framsetningu Arev á því hvaða fyrirtæki mælast stærri og hvernig samsetning kvótaeignar breytist hér.