John Bean Technologies Corporation tilkynnti í Kauphöllinni í morgun að félaginu hafi borist samþykki frá öllum hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum vegna fyrirhugaðrar yfirtöku á Marel.
Samkvæmt tilkynningu tók Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvörðun um að samþykkja fyrirhugaðan samruna á miðvikudaginn.
Að auki barst JBT formleg staðfesting frá áströlskum samkeppnisyfirvöldum þess efnis að engar athugasemdir væru gerðar við fyrirhugaðan samruna síðastliðinn föstudag.
JBT greindi frá því í lok október að ð Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefði samþykkt beiðni félagsins um framlengingu á gildistíma valfrjáls yfirtökutilboðs í Marel.
Tilboðsfresturinn er nú til 20. desember næstkomandi en bandaríska félagið gerir ráð fyrir að uppgjöri viðskiptanna verði lokið eigi síðar en 3. janúar 2025.
Hlutabréfaverð JBT stendur í 125 dölum þegar þetta er skrifað en gengið hefur hækkað um tæp 30% á árinu. Gengi Marels hefur hækkað um rúm 37% á árinu og stendur í 632 krónum þegar þetta er skrifað.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá hafa erlendir fjárfestingasjóðir verið að kaupa í Marel og skortselja JBT til að festa inn hagnað á gengismun í viðskiptunum.