Borgarráð samþykkti í dag kaupsamning um sölu á Perlunni ásamt tveimur tönkum fyrir 3,5 milljarða króna.
Perlan Þróunarfélag ehf., núverandi rekstraraðili hússins sem hefur verið með ferðaþjónustustarfsemi í Perlunni í nokkur ár, er kaupandi eignarinnar. Greint var frá því í október að félagið ætti í viðræðum við borgina um kaup á Perlunni og byggingarrétti þar í kring.
Í fundargerð borgarráðs segja fulltrúar meirihlutans í borginni að þar sem Perlan sé eitt af kennileitum Reykjavíkurborgar verði eftirfarandi kvöðum þinglýst á eignirnar samhliða kaupsamningi:
- Reykjavíkurborg hefur forkaupsrétt að eignunum.
- Kvöð er um að Perlan verði nýtt undir afþreyingartengda starfsemi, s.s. söfn, sýningar, veitingaþjónustu eða annað sem gerir staðinn að aðlaðandi áfangastað fyrir almenning í Reykjavík.
- Kvöð er um að börn í grunnskólum Reykjavíkurborgar geti komið í skipulagðar grunnskólaheimsóknir í þau náttúrusöfn sem verða rekin í eignunum endurgjaldslaust tvisvar sinnum á skólagöngunni í 1. til 10. bekk.
Sjálfstæðismenn sátu hjá
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins, en sögðust þó styðja að Perlan hafi verið sett í söluferli.
„Fulltrúarnir gera þó fyrirvara við greiðslufyrirkomulag og óljós vilyrði um byggingarheimildir og sitja því hjá við afgreiðslu málsins. Mikilvægt er að staðinn sé vörður um hið mikilvæga útivistarsvæði Reykvíkinga sem umlykur Perluna.“
Seld á uppsettu verði
Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknar og fyrrverandi borgarstjóri, studdi söluna og sagði að umræða um „brunaútsölu“ á eignum til þess að bæta fjárhagsstöðu borgarinnar fyrir áramót hafi verið ómálefnaleg enda sýni ársreikningur að borgarsjóður hafi verið rekinn með tæplega fimm milljarða afgangi þrátt fyrir að Perlan seldist ekki fyrir áramót.
„Perlan er hér seld á uppsettu verði og sú starfsemi sem þar er í dag heldur áfram og mun nýtast bæði reykvískum skólabörnum og almenningi öllum jafnt sem ferðamönnum.“