Hluta­hafar raf­bíla­fram­leiðandans hafa sam­þykkt billjóna króna launa­pakka Elon Musk for­stjóra fyrir­tækisins.

Fyrr á árinu sagði dómari í Delaware að launa­pakkinn, sem er að mestu hluti í Tesla, væri ó­sann­gjarn gagn­vart öðrum hlut­höfum. Dómarinn sagði ferlið að baki sam­þykktinni hjá stjórn fé­lagsins hafi verið mein­gallað en Musk á í nánu sam­bandi við nokkra stjórnar­með­limi Tesla.

Upp­haf­legi launa­pakkinn hljóðaði upp á 55,8 milljarða dali, sem sam­svarar um 7.799 milljörðum króna. Hluta­bréfa­verð Tesla hefur þó lækkað um 27% á árinu og stendur virði launa­pakkans í um 48 milljörðum dala eða um 6.700 milljörðum króna á gengi dagsins.

Sam­kvæmt The Wall Street Journalvoru hlut­hafar beittir miklum þrýstingi af stjórn fyrir­tækisins og Musk sjálfum í ferlinu og var mál­efninu stillt upp líkt og fram­tíð fyrir­tækisins væri undir.

At­kvæða­greiðslan er þó ekki bindandi og getur dómarinn í Delaware annað­hvort sam­þykkt hana, hafnað henni eða óskað eftir frekari upp­lýsingum áður en hún tekur á­kvörðun.

Hlut­hafar í Tesla sam­þykktu jafn­framt að flytja höfuð­stöðvar og heimilis­festi fyrir­tækisins frá Delaware og til Texas.

Gengi Tesla hreyfðist lítið í utan­þings­við­skiptum eftir að niður­staðan var kynnt í gær.