Stjórn Hargreaves Lansdown hefur samþykkt 5,4 milljarða punda yfirtökutilboð eignarhaldsfélagsins CVC Capital Partners í allt hlutafé félagsins.
Kaupverðið samsvarar um 952 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins en fjárfestingafélagið var stofnað árið 1981 af Peter Hargreaves og Stephen Lansdown. Hargreaves á enn um 20% hlut í félaginu og Lansdown um 5,7%.
Samkvæmt Financial Times verður greitt fyrir hlutina í reiðufé og fá hluthafar 11,4 pund fyrir hvern hlut.
Hluthöfum stendur þó til boða að breyta hlutum sínum í eignarhluti í hinu óskráða félagi.
Peter Hargreaves er sagður ætla selja einungis 50% af sínum hlutum sem samsvarar um 535 milljónum punda eða um 94 milljörðum íslenskra króna.
Stephen Lansdown er sagður ætla selja alla hluti sína sem samsvarar um 308 milljónum punda eða um 54 milljörðum króna.
Afskráning Hargreaves Lansdown er sögð högg fyrir Kauphöllina í Lundúnum en félagið fór á markað árið 2007 og varð hluti af FTSE 100 árið 2011.
Um 2400 manns starfa hjá fjárfestingafélaginu sem þjónustar um 1,9 milljón viðskiptavini og er með 155,3 milljarða punda í stýringu.