Stjórn Kviku banka hefur samþykkt að verða við beiðni stjórnar Arion banka um að hefja formlegar samrunaviðræður milli Kviku banka og Arion banka og hefur viljayfirlýsing þess efnis verið undirrituð af hálfu beggja aðila. Þetta kemur fram í tilkynningu stjórnar Kviku banka til Kauphallarinnar og í tilkynningu stjórnar Arion banka á sama vettvangi.

Um leið hefur stjórn Kviku hafnað beiðni stjórnar Íslandsbanka um samrunaviðræður.

Hluthafar Kviku eignist 26% í sameinuðum banka

Í viðræðum um sameiningu félaganna er lagt til grundvallar að viðskiptagengið verði 19,17 krónur á hvern hlut í Kviku banka og 174,5 krónur á hlut fyrir Arion banka í væntum samruna. Þannig munu hluthafar Kviku eignast 485.237.822 nýja hluti í sameinuðu félagi sem jafngildir 26% hlut.

„Gert er ráð fyrir sanngjarnri leiðréttingu skiptihlutfalla komi til úthlutunar af fjármunum félaganna til hluthafa fram til þess dags er samruninn tæki gildi.“

Í tilkynningu stjórnar Kviku segir að búist sé við að viðræðurnar muni fara fram á næstu vikum og verði nánar upplýst um framvindu þegar ástæða sé til og í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu bankans.

Þá segir í tilkynningu stjórnar Arion banka að tækifærin sem felist í samruna félaganna séu fjölmörg, bæði fyrir viðskiptavini og hluthafa. Gangi ferlið eftir verði til öflugur banki sem sé einstaklega vel í stakk búinn að mæta fjölbreyttum fjármálaþörfum einstaklinga, fyrirtækja og fjárfesta.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá sl. föstudagskvöld ítrekuðu bæði stjórnir Arion banka og Íslandsbanka fyrri óskir sínar um samrunaviðræður milli bankanna. Stjórnirnar óskuðu upphaflega eftir samrunaviðræðum 27. maí sl.

Stjórn Kviku svaraði þeirri beiðni rúmum tveimur vikum síðar með því hafna samrunaviðræðum þar sem erindi beggja banka endurspeglaði ekki að mati stjórnar Kviku virði bankans. Stjórn Kviku tók þó fram að hún væri til í að endurmeta ákvörðun sína varðandi samrunaviðræður, sem og hún hefur nú gert.

Íslandsbanki skoðar tækifæri innanlands og erlendis

Íslandsbanki segir í tilkynningu í kvöld að hann hafi, líkt og áður hefur verið gefið út, til skoðunar tækifæri til bæði innri og ytri vaxtar.

„Það er mat stjórnar Íslandsbanka að það felist ýmis tækifæri til frekari samþættingar á fjármálamarkaði innanlands en einnig séu tækifæri til vaxtar erlendis. Bankinn mun áfram horfa til virðisaukningar fyrir bæði viðskiptavini og hluthafa bankans.“