Á hluthafafundi Ljósleiðarans, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur (OR), í dag var samþykkt tillaga stjórnar félagsins um hlutafjáraukningu, sem nemur 33,3% hlutafjár eftir hækkunina, með nýrra fjárfesta. Gert er ráð fyrir að söluferli nýs hlutafjár ljúki á næsta ári, að því er segir í tilkynningu Ljósleiðarans.

Til stendur að nýta andvirði hlutafjárhækkunarinnar til uppbyggingar rekstrar félagsins og uppgreiðslu skulda henni tengdri.

„Stjórn félagsins skal ákvarða útboðsgengi og greiðslukjör hinna nýju hluta og í hvaða áföngum heimildin verður nýtt,“ segir í tilkynningunni.

Lokað útboð og dreift eignarhald

Stjórn Orkuveitunnar samþykkti á fundi í lok maí sl. að „farið verði að ráðgjöf Arion banka og stefnt að lokuðu útboði og langtíma fjárfestum sem tengjast almannahagsmunum og aðilum, sem hafi til að bera reynslu og þekkingu, sem nýtist Ljósleiðaranum sérstaklega, verði boðið að gera tilboð“.

Áður hefur komið fram að hlutafjáraukningunni verður beint að langtímafjárfesta „sem hafa almannahagsmuni að leiðarljósi“, s.s. lífeyrissjóðum, tryggingasjóðum tryggingafélaga og rekstrarfélögum verðbréfasjóða sem annast eignastýringu og umsýslu fyrir fyrrgreinda aðila.

Jafnframt segir að OR stefni að dreifðu eignarhaldi meðal væntanlegra hluthafa.

Í tilkynningunni segir að tillaga um framkvæmd hlutafjáraukningarinnar hafi verið kynnt eigendasveitarfélögum þann 15. júní og mun forstjóri Orkuveitunnar taka endanlega afstöðu til væntanlegra tilboða á hluthafafundi Ljósleiðarans, að fengnu umboði frá stjórn OR.

„Við teljum að fjárfestar hafi trú á því kröftuga samkeppnisfyrirtæki sem Ljósleiðarinn er. Við höfum séð áhugann sem þeir hafa sýnt grænum skuldabréfum Ljósleiðarans og þar með trú þeirra á uppbyggingu fyrirtækisins en með traustum undirliggjandi rekstri mun fyrirtækið skila eigendunum arði. Nú leitum við að meðeigendum sem eru tilbúnir að takast á við áskoranir framtíðarinnar með okkur,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar.

„Við þurfum að leggja nýjan landshring fjarskipta til að efla fjarskipta- og upplýsingaöryggi landsins. Tilkoma 5G krefst aukinnar gagnaflutningsgetu og við teljum að Ljósleiðarinn sé lykilaðili í að tryggja heilbrigða samkeppni á fjarskiptamarkaði hér á landi.“

Áformin kynnt fyrir meira en ári

Ljósleiðarinn tilkynnti fyrst í júní 2022 að undirbúningur að hlutafjáraukningu væri hafinn. Fyrirhuguð hlutafjáraukning, með aðkomu annarra fjárfesta en OR, var samþykkt á hluthafafundi Ljósleiðarans í lok október með fyrirvara um staðfestingu eigenda, einkum Reykjavíkurborgar. Stefnt var að ljúka hlutafjáraukningunni fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2023.

Endanlegt samþykki eigenda OR - – Reykjavíkurborg (93,5%), Akraneskaupstaður (5,5%) og Borgarbyggð (0,9%) - fékkst ekki fyrr en í byrjun maí síðastliðnum.

Er­ling Freyr Guð­munds­son, sem gegndi stöðu fram­kvæmda­stjóra Ljós­leiðarans frá árinu 2015, lét af störfum fyrr í sumar en hann hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri rekstrar hjá atNorth.

Einar Þórarinsson, hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra og kemur hann til starfa 1. október næstkomandi. Hann kemur til félagsins frá Sidekick Health.