Þrjú ráðuneyti hafa síðastliðið ár gert samning um fjármögnun til Samtakanna '78, hagsmunafélags hinsegin fólks á Íslandi. Samtökin skoða nú möguleika á samningum við þrjú ráðuneyti til viðbótar, að því er kemur fram í nýrri ársskýrslu samtakanna.
Forsætisráðuneytið og Samtökin '78 undirrituðu í síðasta mánuði þjónustusamning til fjögurra ára. Samkvæmt samningnum greiðir forsætisráðuneytið 40 milljónir króna árlega gegn því að samtökin sinni fræðslu um málefni hinsegin fólks.
Einnig var undirritaður samningur um sérstakan 12 milljóna króna einskiptis styrk sem fjárlaganefnd Alþingis samþykkti í lok árs 2023 til að styðja almennt við rekstur samtakanna og skjóta styrkari fótum undir starfsemina en um einskiptis fjárframlag er að ræða.
Mennta- og barnamálaráðuneytið undirritaði í byrjun febrúar samning við Samtökin '78 um stuðning við fræðslu- og ráðgjöf samtakanna. Stuðningurinn nemur 25 milljónum króna til loka þessa árs.
Þá tilkynnti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í byrjun árs um að ráðuneytið hans hefði veitt Samtökunum ´78 styrk að upphæð 20 milljónir króna til að sinna ráðgjöf fyrir hinsegin fólk, aðstandendur þess og þau sem ekki eru viss um eigin hinseginleika.
Alls er því útlit fyrir að samtökin fái 97 milljónir króna í gegnum samninga við ráðuneytin þrjú.
Skoða samninga við dómsmála-, menningar- og utanríkisráðuneytin
Í ársskýrslu samtakanna kemur fram að skoðaðir hafi verið möguleikar á samningum við fleiri ráðuneyti fyrir árið 2024. Skoðaðir hafi verið samningar við dómsmálaráðuneytið, menningar- og viðskiptaráðuneytið og utanríkisráðuneytið. „Samtökin ’78 hafa sinnt víðtækri vinnu sem snertir á málaflokkum þessara ráðuneyta.“
Hjá dómsmálaráðuneytinu hafi Samtökin ’78 unnið með sýslumannsembættum, dómstólum og lögreglu- og viðbragsaðilum.
„Samningur við menningar- og viðskiptaráðuneytið myndi að öllum líkindum snúa að hinsegin menningu og sögu, 50 ára afmæli Samtakanna ’78 og viðburðum er snúast um sögulega þætti.“
Samtökin segjast vilja efla alþjóðatengsl við fleiri heimsálfur heldur en einungis Evrópu og jafa t.a.m. skoðað verkefni í Úganda og víðar í Afríku. Verkefni á sviði alþjóðamála falli undir utanríkisráðuneytið.
„Þessi mál eru öll á skoðunarstigi en vonast er til þess að víkka enn frekar verkefnasvið Samtakanna ’78.“
Samtökin eru einnig með þjónustusamninga við sveitarfélög og stofnanir ríkisins, sem snúa að mestu um fræðslu.
Í ársskýrslunni kemur einnig fram að fjöldi mánaðarlegra styrkjenda, svokallaðra Regnbogavina, hafi tvöfaldast milli ára. Fjármögnun samtakanna í gegnum Regnbogavini jókst úr 19 milljónum í 42,6 milljónir milli ára. Þessi fjármögnunarleið er hluti af áherslum um að stækka hlut sjálfsaflafjár.

Neikvætt eigið fé eftir 29 milljóna tap
Rekstrartekjur Samtakanna ´78 jukust um 23% milli ára og námu 153,6 milljónum króna árið 2023. Þar af námu opinber framlög 73 milljónum og styrkir 59 milljónum. Samtökin voru rekin með 28,9 milljóna króna halla í fyrra samanborið við 13,7 milljóna afgang árið 2022.
Eignir samtakanna voru bókfærðar á 40 milljónir í árslok 2023. Eigið fé var neikvætt um eina milljón um áramótin.
Í ársskýrslunni kemur fram að samkvæmt fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 176 milljónum í tekjur og um 160 milljónir í gjöld á árinu 2024.
„Rekstrarárið 2024 hefur aldrei verið stærra. Með ört fjölgandi verkefnum, faglegri þjónustu og fjölgun stuðnings-, félags- og virknihópa þarf að gera ráð fyrir töluvert meira fjármagni í ráðgjafa- og fræðslustarfið, sem og starfsmannakostnað sem því fylgir.“
