Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar og formaður Sósíalistaflokksins, tilkynnti síðastliðinn mánudag að hann hygðist ekki segja af sér.
Hann hafði áður sagst íhuga stöðu sína eftir að spænskir dómstólar hófu rannsókn á fyrirtæki eiginkonu hans, Begoña Gomez, vegna ásakana um spillingu.
Ásakanirnar komu frá stéttarfélaginu Manos Limpias, eða Hreinar Hendur á íslensku, félag með tengsl við „öfga-hægrið“ á Spáni.
Herferðin hafi staðið yfir í áratug
Sánchez sagðist í ávarpinu ætla að halda áfram sinni baráttu gegn „tilhæfulausum árásum.“ „Þetta er spurning um reisn og hvað skilgreinir okkur sem samfélag,“ sagði Sánchez.
Í ávarpinu þakkaði hann meðlimum Sósíalistaflokksins fyrir stuðninginn. „Við hjónin vitum að þessi herferð [gegn okkur] mun ekki hætta,“ sagði hann og bætti við að „herferðin“ hefði staðið yfir í áratug.