Réttarhöld yfir Nicolas Sarkozy, fyrrum Frakklandsforseta, vegna meintrar þátttöku í samsæri hófust í byrjun vikunnar en Sarkozy er sakaður um að hafa þegið illa fengið fé frá Líbýu í aðdraganda forsetakosninganna í Frakklandi árið 2007.
Saksóknarar halda því fram að aðilar úr innsta hring Muammar Gaddafi, fyrrum einræðisherra Líbýu sem ráðinn var af dögum árið 2011, hafi greitt kosningateymi Sarkozy um 5 milljónir evra gegn því að Sarkozy sýndi stjórn Gaddafi stuðning, bæði fyrir og eftir að hann varð forseti.
Gert er ráð fyrir að réttarhöldin standi yfir fram á vor en sjálfur neitar fyrrum forsetinn alfarið sök. Þetta er í þriðja sinn sem Sarkozy er sóttur til saka fyrir dómstólum í Frakklandi vegna spillingar en í desember síðastliðnum staðfesti áfrýjunardómstóll eins árs fangelsisdóm sem féll árið 2021.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. janúar 2025.