Skandinavíska flugfélagið SAS hefur sótt um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum en slíkt ferli gefur félaginu kost á að halda áfram flugrekstri á meðan það gengur í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu.

Anko van der Werff, forstjóri SAS, sagði að verkfall flugmanna sem hófst í gær hafi hraðað ákvörðuninni um að sækja um greiðslustöðvun. SAS neyðist til að fella niður fjölda áætlunarferða og samkvæmt upplýsingum danska viðskiptablaðsins Börsen gæti daglegt tap vegna verkfallsins numið 1,3 milljörðum íslenskra króna.

Sjá einnig: Sjöunda verkfall flugmanna á 12 árum

SAS er eitt af örfáu flugfélögunum sem hafa sótt um greiðslustöðvun frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst, að því er kemur fram í umfjöllun breska dagblaðsins Financial Times. Norwegian Air Shuttle sótti um greiðslustöðvun á Írlandi á seinni árshelmingi 2020. Þá sótti suður-ameríska flugfélagið LatAm um greiðslustöðvun í New York vorið 2020.