Hæstiréttur hefur samþykkt málskotsbeiðni Samskipa í tengslum við kröfu félagsins um að tiltekin atriði í sátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið verði felld úr gildi.
Í júní 2021 gerði Eimskip sátt við Samkeppniseftirlitið þar sem félagið gekkst við að hafa átt í samráði við Samskip. Eimskip greiddi sekt og skuldbatt sig til að hætta öllu viðskiptalegu samstarfi við Samskip.
Samskip hefur stefnt stjórnarformanni og forstjóra Eimskips fyrir rangar sakargiftir en líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um harðneituðu forsvarsmenn Eimskips á umræddu samráðstímabili að hafa átt í samráði við Samskip.
Ekki nema ári seinna ákváðu nýir stjórnendur Eimskips að gera sátt við eftirlitið og játa brotin sem SKE sakaði forvera þeirra um.
Samskip kærði sáttina til áfrýjunarnefndar Samkeppnismála og vísaði áfrýjunarnefndin málinu frá. Héraðsdómur sneri við niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar og sagði nefndinni að taka málið fyrir.
Samkeppniseftirlitið áfrýjaði til Landsréttar sem komst að sömu niðurstöðu og áfrýjunarnefndin um að vísa ætti málinu frá þar sem sáttin væri skuldbindandi fyrir Eimskip en ekki Samskip og því ættu Samskip ekki lögvarða hagsmuni.
„Leyfisbeiðandi [Samskip] telur að niðurstaða Landsréttar hafi verulegt fordæmisgildi og varði mikilsverða hagsmuni sína. Ekki hafi áður gerst að gagnaðili hafi sett bindandi fyrirmæli í sátt sem beinist að fyrirtæki sem stendur utan sáttar. Leyfisbeiðandi telur að sáttin brjóti gegn rétti hans til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð og atvinnufrelsi hans,” segir í málskotsbeiðni Samskipa.
„Skilyrðin í sáttarákvæðinu sem ógildingarkrafan beinist að hafi í för með sér að leyfisbeiðanda og Eimskipum sé eftirleiðis óheimilt að notast við sömu þjónustuaðila eða eiga í viðskiptum við sömu fyrirtæki í flutningsþjónustu nema Eimskip sýni fram á að slík viðskipti séu ekki samkepp. Þetta geti haft þær afleiðingar að þjónustufyrirtæki í flutningastarfsemi sem leyfisbeiðandi hafi átt í viðskiptum við kjósi frekar að eiga viðskipti við Eimskip en leyfisbeiðanda, enda ljóst að hagsmunir þeirra af viðskiptum við Eimskip séu mun meiri. Eimskip sé stærra fyrirtæki en leyfisbeiðandi og með einokunarstöðu á sumum mörkuðum. Keppinautar Eimskipa eigi af þessum sökum mikla hagsmuni af því að geta átt viðskipti við fyrirtækið,“ segir í málskotsbeiðni Samskipa.
em fyrr segir samþykkti Hæstiréttur að taka málið fyrir en að mati Hæstaréttar hefur úrlausn málsins fordæmisgildi, einkum um réttaráhrif stjórnvaldssáttar á sviði samkeppnisréttar á þriðja aðila og möguleika hans á að bera gildi ákvæða í slíkri sátt, sem kunna að varða hagsmuni hans, undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála.