Hæstiréttur hefur samþykkt mál­skots­beiðni Sam­skipa í tengslum við kröfu félagsins um að til­tekin at­riði í sátt Eim­skips við Sam­keppnis­eftir­litið verði felld úr gildi.

Í júní 2021 gerði Eim­skip sátt við Sam­keppnis­eftir­litið þar sem félagið gekkst við að hafa átt í samráði við Sam­skip. Eim­skip greiddi sekt og skuld­batt sig til að hætta öllu við­skipta­legu sam­starfi við Sam­skip.

Sam­skip hefur stefnt stjórnar­for­manni og for­stjóra Eim­skips fyrir rangar sakar­giftir en líkt og Við­skipta­blaðið hefur fjallað um harðneituðu for­svars­menn Eim­skips á um­ræddu samráðstíma­bili að hafa átt í samráði við Sam­skip.

Ekki nema ári seinna ákváðu nýir stjórn­endur Eim­skips að gera sátt við eftir­litið og játa brotin sem SKE sakaði for­vera þeirra um.

Sam­skip kærði sáttina til áfrýjunar­nefndar Sam­keppnis­mála og vísaði áfrýjunar­nefndin málinu frá. Héraðs­dómur sneri við niður­stöðu áfrýjunar­nefndarinnar og sagði nefndinni að taka málið fyrir.

Sam­keppnis­eftir­litið áfrýjaði til Lands­réttar sem komst að sömu niður­stöðu og áfrýjunar­nefndin um að vísa ætti málinu frá þar sem sáttin væri skuld­bindandi fyrir Eim­skip en ekki Sam­skip og því ættu Sam­skip ekki lög­varða hags­muni.

„Leyfis­beiðandi [Sam­skip] telur að niður­staða Lands­réttar hafi veru­legt for­dæmis­gildi og varði mikils­verða hags­muni sína. Ekki hafi áður gerst að gagnaðili hafi sett bindandi fyrir­mæli í sátt sem beinist að fyrir­tæki sem stendur utan sáttar. Leyfis­beiðandi telur að sáttin brjóti gegn rétti hans til að teljast sak­laus uns sekt er sönnuð og at­vinnu­frelsi hans,” segir í mál­skots­beiðni Sam­skipa.

„Skil­yrðin í sáttarákvæðinu sem ógildingar­krafan beinist að hafi í för með sér að leyfis­beiðanda og Eim­skipum sé eftir­leiðis óheimilt að notast við sömu þjónustu­aðila eða eiga í við­skiptum við sömu fyrir­tæki í flutningsþjónustu nema Eim­skip sýni fram á að slík við­skipti séu ekki sam­kepp­. Þetta geti haft þær af­leiðingar að þjónustu­fyrir­tæki í flutninga­starf­semi sem leyfis­beiðandi hafi átt í við­skiptum við kjósi frekar að eiga við­skipti við Eim­skip en leyfis­beiðanda, enda ljóst að hags­munir þeirra af við­skiptum við Eim­skip séu mun meiri. Eim­skip sé stærra fyrir­tæki en leyfis­beiðandi og með ein­okunar­stöðu á sumum mörkuðum. Keppi­nautar Eim­skipa eigi af þessum sökum mikla hags­muni af því að geta átt við­skipti við fyrir­tækið,“ segir í mál­skots­beiðni Sam­skipa.

em fyrr segir samþykkti Hæstiréttur að taka málið fyrir en að mati Hæstaréttar hefur úr­lausn málsins for­dæmis­gildi, einkum um réttaráhrif stjórn­valds­sáttar á sviði sam­keppnis­réttar á þriðja aðila og mögu­leika hans á að bera gildi ákvæða í slíkri sátt, sem kunna að varða hags­muni hans, undir áfrýjunar­nefnd sam­keppnis­mála.