Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnti hagræðingar í ríkisrekstri til að koma til móts við verðbólguna í landinu á blaðamannafundi í dag.
Yfirskrift fundarins var þróun ríkisfjármála og hagræðing í rekstri en Bjarni sagði afkomu ríkissjóðs langt umfram væntingar. Í fjárlagafrumvarpinu í desember var gert ráð fyrir því að frumjöfnuður yrði neikvæður um 50 milljarða en nú stefnir í að hann verði jákvæður um 50 milljarða sem er 100 milljörðum betri en áætlað var.
Bjarni sagði á fundinum að gert verður ráð fyrir 17 milljarða ráðstöfunum á næsta ári til að hægja á vexti útgjalda.
Þar af er gert ráð fyrir að launakostnaður stofnana lækki um 5 milljarða króna en til þess að ná því mun koma til nokkurrar fækkunar stöðugilda í stofnanakerfinu, bæði í gegnum starfsmannaveltu og uppsagnir. Hann sagði að vörður verður áfram staðinn um framlínustarfsemi, m. a. á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla og menntamála.
Bjarni sagðist hafa fundað með öllum forstöðumönnum ríkisstofnanna í gær til að fara yfir aðhaldsmarkmiðin.
Gert ráð fyrir tekjuráðstöfunum að svipuðu umfangi
Á vef stjórnarráðsins segir að samhliða þessu lækki önnur rekstrargjöld, á borð við ferðakostnað, auk þess sem lögð verður áhersla á hagkvæmari opinber innkaup.
„Enn fremur er aukið á aðhald innan ráðuneyta og dregið úr nýjum verkefnum. Í kynningu ráðherra er bent á að mikil tækifæri felist í einföldun stofnanakerfisins, áherslu á stafrænar lausnir sem leiða til betri nýtingar fjármuna, lækkun húsnæðiskostnaðar í gegnum sameiginleg vinnurými, samrekstri og útboði þjónustu. Samhliða þessum aðgerðum er gert ráð fyrir tekjuráðstöfunum að svipuðu umfangi. Mestu munar þar um notkunargjöld vegna rafmagns- og tengiltvinnbifreiða, aukna gjaldtöku á ferðaþjónustu, þ. á. m. af skemmtiferðaskipum, og hækkun gjalds á fiskeldisfyrirtæki á árinu 2025. Þá verður tekjuskattur lögaðila hækkaður tímabundið í eitt ár um 1% líkt og áður hefur verið boðað.“
Fjármálaráðuneytið mun á næstu vikum ásamt stofnunum vinna að útfærslu aðgerðanna þannig að sett markmið um afkomu ríkisins fái staðist.
Rothögg ferðaþjónustunnar
Ríkisstjórnin kynnti í júní útgjaldaráðstafanir til að bæta afkomu ríkissjóðs um 9 milljarða til viðbótar við þær 8,8 milljarða aðhaldsaðgerðir sem kynntar voru í fjármálaáætlun.
Bjarni sagði að Covid-faraldurinn hafi verið Íslandi erfiðari en mörg önnur lönd þar sem hér var meiri samdráttur en í nágrannalöndum þar sem ferðaþjónustan varð fyrir „algjöru rothöggi.“
„Það hefur meiri áhrif hér en annars staðar þegar ein af undirstöðuatvinnugreinunum verður fyrir svona miklu höggi,“ sagði Bjarni en bætti við að fá lönd hafa vaxið jafn hratt úr faraldrinum og Íslands.
Efnahagsumsvif á Íslandi væru mikil og atvinnuleysi eitt það minnsta í fimm ár.
Skuldastaða ríkissjóðs var góð fyrir faraldurinn sem gerði okkur kleift að takast á við hamfararnir í kjölfar heimsfaraldursins.
„Við leyfðum hagkerfinu að fara í halla til að verja opinbera þjónustuna,“ sagði Bjarni á fundinum en nú er afkoman mun betri en spár gerðu ráð fyrir.