Scott Minerd, aðalfjárfestingarstjóri alþjóðlega fjárfestingar- og ráðgjafarfélagsins Guggnehim Partners, lést í gær. Minerd er ekki síður þekktur á Íslandi fyrir framlag sitt þegar kemur að málefnum Norðurslóða. Hann lagði sitt að mörkum til að stuðla að efnahagsþróun og fjárfestingu á Norðurslóðum.

Hinn 63 ára gamli Minerd stundaði kraftlyftingar í frítíma sínum. Hann lést úr hjartaáfalli á æfingu í gær.

Financial Times segir að Minerd sé talinn meðal færustu fjárfesta síðustu áratuga á skuldabréfamörkuðum heims. Yfirlýsingar hans um þróun í efnahagsmálum voru vinsælar meðal fjárfesta en reikningur hans á Twitter er með um 160 þúsund fylgjendur.

Minerd var meðal þekktustu andlita Guggenheim Partners og spilaði stórt hlutverk er félagið fór úr því að vera fjárfestingarfélag hinnar auðugu Guggenheim fjöskyldu í að verða eitt af stærstu eignastýringafélögum Bandaríkjanna. Eignir í stýringu Guggenheim nema yfir 285 milljörðum dala.

Setti á fót Norðurslóðastofnun

Minerd var viðstaddur þing Hringborðs Norðurslóða í otkóber síðastliðnum. Þar tilkynnti hann um stofnun Minerd-stofnunarinnar um frið og velsæld á Norðurslóðum. Til stendur að stofnunin verði til húsa í Grímsson Centre, fyrirhuguðu Norðurslóðasetri nálægt Háskóla Íslands.

Í umræðum með Katrínu Jakobsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni og fleirum um hina fyrirhuguðu byggingu ræddi Minerd um sérstöðu Íslands í heiminum, m.a. þegar kemur að nýtingu jarðvarma.

Minerd sagði frá því að Ólafur Ragnar hefði hringt í sig og beðið sig um að vera með starfsemi í byggingunni. Ólafur Ragnar hefði jafnframt óskað eftir því að nafn Minerd yrði hluti af heiti framtaksins til að auka vægi verkefnisins.

Minerd tók þátt í umræðum með Katrínu Jakobsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni og fleirum um hina fyrirhuguðu Grímsson Center byggingu á háskólasvæðinu.
© Arctic Circle (Arctic Circle)

„Von mín er að með Grímsson-miðstöðinni og Minerd-stofnuninni getum við skapað vettvang hér í Reykjavík, með vísan til sögulegs hlutverks borgarinnar, þar sem aðilar hvaðanæva úr heiminum geta komið saman og rætt málin í öruggu umhverfi sem erfitt að skapa annars staðar,“ sagði Minerd í viðtali við Vísi á ráðstefnunni.

Á Hringborði Norðurslóða tilkynnti Ólafur Ragnar einnig um að komið hafi verið á fót vinnuhópi í kringum fyrirhugaða fjárfestingarsjóðinn Arctic Investment Partners (AIP) sem mun einblína á fjárfestingar á Norðurslóðum.

Á bak við sjóðinn standa Arion banki, Pt. Capital, hluthafi í Nova og Keahótelum, og Guggenheim Partners.