Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Samgöngustofu af kröfum ferðaþjónustufyrirtækisins Sea Trips vegna skráningar skipsins Amelía Rose. Eigendur Sea Trips hafa ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Málið mun fá flýtimeðferð hjá Landsrétti og forsvarsmenn fyrirtækisins og segjast vera sannfærðir um að niðurstöðu Héraðsdóms verði snúið.

Sea Trips krafðist þess að stjórnvaldsákvörðun Samgöngustofu, sem innviðaráðherra staðfesti með úrskurði í maí, yrði hrundið og að lagt verði fyrir stofnunina að skrá skipið sem gamalt skip í skipaskrá.

Sea Trips, sem gerir Amelíu Rose út frá Reykjavík til hvalaskoðana og skemmtisiglinga, kveður það varða stórfellda hagsmuni sína að skipið sé skráð sem gamalt skip, þar sem skráning þess sem „nýtt skip“ takmarki bæði farsvið þess og fjölda farþega.

„Ákvörðun [Samgöngustofu] um að skrá skipið sem nýtt en ekki gamalt, eins og það sé, geri útgerð þessa í raun ómögulega, enda hafi sigling Amelíu Rose sætt ítrekuðum afskiptum af hálfu löggæsluyfirvalda, bæði Landhelgisgæslu og lögreglu, og gengið hafi verið svo langt að ákæra skipstjóra Amelíu Rose fyrir brot á reglugerð,“ segir í málsgögnum. Skipstjórinn var sýknaður af refsikröfum með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í apríl 2021.

Sjá einnig: Saka Samgöngustofu um einelti

Amelía Rose var stöðvað af varðskipi Landhelgisgæslunnar í apríl síðastliðnum. Starfsmenn gæslunnar tóku yfir stjórn skipsins, sem var með farþega í hvalaskoðun, og sigldu því í land. Tilefni aðgerða Landhelgisgæslunnar var að Amelía Rose átti að hafa siglt of langt út á haf að gefnum farþegafölda um borð.

Í tilkynningu sem Sea Trips sendi vegna atviksins í apríl kom fram að skipið hafði þá verið snúið við sjö sinnum eftir að starfsmenn Landhelgisgæslunnar höfðu tekið það yfir og í sex önnur skipti hafði skipinu verið snúið við eftir símtal frá gæslunni. Þá hafa lögreglumenn ítrekað mætt þegar Amelía leggst að bryggju og talið farþega. Fyrirtækið áætlar að hafa tapað á annað hundrað milljóna króna vegna aðgerðanna.

Svanur Sveinsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Sea Trips:

„Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur olli okkur vonbrigðum og kom okkur í raun verulega á óvart. Við teljum að dómurinn sé rangur og að sönnunarmat það sem hann byggir á sé sömuleiðis rangt. Málið er ekki eins flókið og Samgöngustofa vill meina.

Það leikur sér enginn að því að standa í svona stríði við opinberar stofnanir, en við sjáum engan annan kost í stöðunni en að halda málarekstrinum áfram til að vernda hagsmuni okkar og fyrirtækisins.“