Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna (SEC) hefur kært McDonald‘s og fyrrum forstjóra skyndibitakeðjunnar, Steve Easterbrook, fyrir hvernig staðið var að upplýsingagjöf um uppsögn hans árið 2019 eftir að hann átti í ástarsambandi við starfsmann.
Easterbrook ber að greiða 400 þúsund dali, eða sem nemur 58 milljónum króna, í stjórnvaldssekt, samkvæmt tilkynningu SEC. Hann hefur auk þess fallist á taka ekki við stjórnar- eða stjórnendastöðu næstu fimm árin.
SEC sagði að Easterbrook, sem gegndi stöðu forstjóra McDonald‘s á árunum 2015-2019, hefði brotið ákvæði laga um verðbréfaviðskipti með röngum og villandi tilkynningum um atburði í aðdraganda þess að hann yfirgaf félagið í nóvember 2019.
SEC áminnti einnig McDonald‘s fyrir að hafa ekki gefið upp nánari upplýsingar um uppsögnina. Jafnframt hefði stórfyrirtækið, með 40 milljóna dala starfslokasamningi við Easterbrook, gefið til kynna að uppsögnin væri tilefnislaus. McDonald‘s slapp þó við stjórnvaldssekt, m.a. þar sem félagið sótti til baka stóran hluta af bótum fyrrum forstjórans.