Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna (SEC) hefur ákveðið að lækka verðbilið sem má vera milli kaup- og söluverðs hlutabréfa. Árum saman hefur verið miðað við eitt penní en allir fimm stjórnarmenn SEC sammæltust um að breyta því í hálft sent.
Hálft sent er um 0,005 Bandaríkjadalur og miðað við gengi dals og krónu í dag verður verðbilið því 0,68 krónur.
Samhliða þessum breytingum var ákveðið að lækka gjöld sem verðbréfamiðlarar mega rukka fyrir verðbréfaviðskipti en samkvæmt Financial Times voru mun róttækari aðgerðir á teikniborðinu sem hlutu ekki brautargengi.
Samkvæmt FT mun lægra verðbil og lækkuð gjöld auka seljanleika bréfa í Bandaríkjunum en reikna má með því að hagnaður verðbréfamiðlara og fjármálafyrirtækja dragist saman.
Svokölluð hátíðnifjárfestingafélög (e. high-frequency trading firms) sem hafa hagnast á að nýta sér smávægileg verðbil með gríðarlegum fjölda af rafrænum viðskiptum munu koma verst úr breytingum.
Reglubreytingin tekur þó ekki gildi vestanhafs fyrr en í nóvember 2025.