Bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC) er með fjártæknifyrirtækið Better, sem Novator fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar er meðal lykilfjárfesta í, til skoðunar vegna mögulegra brota á lögum um verðbréfaviðskipti. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu sem Better sendi frá sér í síðustu viku. WSJ greinir frá.

SEC hefur óskað eftir gögnum frá Better og sérhæfða yfirtökufélaginu (e.SPAC) Aurora Acquisition Corp., sem Novator leiðir og Björgólfur Thor gegnir stjórnarformennsku hjá. SEC skoðar nú viðskiptahætti hins litríka forstjóra Better, Vishal Garg, og ásakanir gegn honum af hálfu Sarah Pierce, sem lét af störfum sem forstöðumaður sölu og rekstrar (e. VP of sales and operations) hjá Better fyrr í ár.

Sjá einnig: Garg sakaður um að villa um fyrir fjárfestum

Í tilkynningunni sagðist Better vera reiðubúið að afhenda öll þau gögn sem SEC fer fram á og því væri „ljúft og skylt að setja hátt viðmið um gagnsæi og viðbragðsflýti“.

Pierce höfðaði mál gegn Better á þeim forsendum að Garg og Better hefðu gefið villandi mynd af rekstri og horfum fyrirtækisins til að tryggja að fjárfestar myndu ekki hörfa frá félaginu fyrir skráningu í gegnum samruna við Aurora. Samrunanum hefur nú verið frestað um nokkurra mánaða skeið og fjármögnun félagsins hefur tekið umtalverðum breytingum. Félögin greindu frá samkomulagi um samrunann í maí 2021.

Better hafnaði ásökununum eftir að þær birtust opinberlega og sagði þær ekki eiga við rök að styðjast.

Pierce sökuð um lítið vinnuframlag

Í málsgögnum sem Better lagði fram fyrir dómi er Pierce borin þungum sökum, að því er New York Post greindi frá. Þar heldur fyrirtækið því fram að Pierce hafi ráðið þúsund nýja starfsmenn til að bæta sölutölur sínar en hún hafi á sama tíma farið í atvinnuviðtöl hjá öðrum fyrirtækjum. Better telur að óstjórn Pierce hafi átt stóran þátt í að sala félagsins var 400 milljónum dala undir markmiðum í fyrra.

Sjá einnig: Risauppsagnir hjá Better

„Hefði Pierce sinnt vinnunni sinni, þá hefðu uppsagnir félagsins ekki náð til 900 manns,“ er haft eftir ónafngreindum heimildarmanni sem vitnar í hópuppsögn Garg í gegnum Zoom.

Pierce, sem var með nærri eina milljón dala í árslaun, keypti skíðaskála í bænum Aspen í Colorado fylki í maí 2021 fyrir 11,5 milljónir dala, eða sem nemur 1,6 milljörðum króna á gengi dagsins. Pierce er sögð hafa stært sig reglulega af því að sinna ekki vinnunni sinni. Hún hafi oft og tíðum hunsað tölvupósta samstarfsfélaga eða einfaldlega svarað þeim með myndum af hvolpum fremur en að svara spurningum þeirra.

Lögmaður Pierce sagði ásakanirnar á hendur henni klassískt dæmi þar sem fórnarlambinu er kennt um og frásögn þess dregin í efa.