Framtakssjóðurinn Edda slhf., sem er í rekstri Kviku eignastýringar, fékk 2.613 milljónir króna við sölu á 40% hlutar í Securitas til Vara eignarhaldsfélags. Securitas var því metið á um 6,5 milljörðum króna í viðskiptunum.
Vari og Edda undirrituðu kaupsamning fyrir ári síðan og er Vari í dag 100% eigandi í Securitas.
Vari er í 95% eigu Stekks fjárfestingarfélags, sem er í 100% eigu Kristins Aðalsteinssonar, en Guðlaug Kristbjörg Kristinsdóttir er stjórnarformaður Vara eignarhaldsfélags og forstjóri Stekks fjárfestingarfélags. Stekkur hafði verið hluthafi í Securitas í 14 ár þegar samningurinn var undirritaður.
Edda greiddi út 2,7 milljarða króna til hluthafa í kjölfar sölunnar en stærstu hluthafar sjóðsins eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem fer með 19,9% hlut og Gildi lífeyrissjóður með 17% hlut.
Í dag er eina fjárfestingareign sjóðsins rúmlega 34% hlutur í samlagshlutafélaginu S38, sem heldur utan um 24% hlut í Íslandshótelum. Eignir Eddu voru bókfærðar á 2.711 milljónir króna í árslok og nam eigið fé 1,9 milljörðum. Hagnaður félagsins nam 637 milljónum króna árið 2024.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.