Gjá hefur myndast milli þjóðhagsvarúðarstefnu og peningastefnu Vesturlanda í fyrsta sinn í hálfan annan áratug, sem setur seðlabanka í afar erfiða stöðu. Jafnvel smávægileg lausafjárvandræði gætu leitt til fjármálakrísu, þar sem markaðsaðilar eru meðvitaðir um stöðu seðlabanka og reikna ekki með sama stuðningi og þeir hafa mátt venjast.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein um áhrif stríðsins í Úkraínu og efnahagsþvingana Vesturlanda eftir hagfræðingana Robert Macrae, Charles Goodhart og Jón Daníelsson við London School of Economics.

Verðbólga hefur verið á uppleið frá því áhrifa heimsfaraldursins á aðfangakeðjur, og örvunaraðgerða yfirvalda vegna hans, fór að gæta, og mælist nú víðast hvar sú mesta í áratug eða -tugi. Íslenski seðlabankinn hefur þegar hafið vaxtahækkunarferli sitt, sá bandaríski hafði þegar tilkynnt um stóraukið aðhald á þessu ári, og búist var við að sá evrópski færi sömu leið áður en stríðið skall á.

Efnahagshögg stríðsins og þvingana í tengslum við það kallar á lausari peningastefnu með mikilli innspýtingu lausafjár, en að ná tökum á áðurnefndri verðbólgu – sem aðeins er líkleg til að aukast enn frekar vegna stríðsins – kallar á hið gagnstæða.

Staðan litlu betri í ríkisfjármálunum
Daníelsson og félagar segja eina leið til að takast á við vandann vera þá að bjóða mikið af lánsfé en aðeins gegn tryggum veðum. Slíkt kunni hinsvegar að samræmast illa hlutverki einkarekinna lánastofnana eins og það er skilgreint í dag.

Þessu til viðbótar benda þeir á að sá stuðningur sem bæði seðlabankar og ríkissjóðir hafi veitt allt frá hruni – og náði hámarki í faraldrinum – hafi skilið eftir lítið svigrúm til frekari stuðnings til að mæta áhrifum stríðsins. Staðan sé þó nokkuð misjöfn milli landa hvað varðar ríkisfjármálin, og því sé hætt við vaxandi sundrung meðal Evrópuþjóða og hagkerfa þeirra ef staðan verður mjög slæm í sumum en mun betri í öðrum.