Seðlabanki Evrópu tilkynnti í hádeginu um ákvörðun sína að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur, niður í 3,50%. Bankinn lækkaði síðast vexti í júní síðastliðnum.
Stýrivaxtalækkunin var í samræmi við væntingar markaðarins. Í umfjöllun Reuters segir að fjárfestar séu þegar farnir að velta fyrir sér næstu skrefum bankans.
Peningastefnunefnd bankans gaf ekki til kynna í yfirlýsingu sinni hvort önnur vaxtalækkun sé væntanleg á næstunni. Nefndin þurfi að meta stöðuna á hverjum vaxtaákvörðunarfundi.
Verðbólga á evrusvæðinu mældist 2,2% í ágúst, samanborið við 2,6% í júlí. Verðbólgumarkmið evrópska seðlabankans er 2,0%.