Seðlabanki Evrópu tilkynnti í hádeginu að hann hefði ákveðið að lækka stýrivexti sína í fjórða sinn á árinu. Bankinn lækkaði stýrivexti sína úr 3,25% í 3,0%, í samræmi við spár markaðsaðila.
Seðlabankinn gaf jafnframt til kynna að hann gæti lækkað vexti enn frekar með því að tala ekki lengur í yfirlýsingu sinni um þörf á að halda vaxtastigi sínu „nægjanlega aðhaldssömu“, að því er segir í frétt Reuters.
Bankinn færði niður verðbólguspá sína fyrir árið 2024 og gerir nú ráð fyrir að verðbólga í ár verði að meðaltali 2,4% en fyrri spá gerði ráð fyrir 2,5%. Verðbólguspáin fyrir árið 2025 var einnig færð niður úr 2,2% í 2,1%.