Seðlabanki Evrópu tilkynnti í hádeginu í dag um ákvörðun sína að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur, niður í 3,25%. Þetta er þriðja vaxtalækkun bankans í ár.

Ákvörðunin var í samræmi við spár hagfræðinga í könnun Reuters en auknar væntingar eru um að verðbólga á evrusvæðinu verði stöðugri í kringum 2% verðbólgumarkmið seðlabankans en áður var talið. Verðbólga á evrusvæðinu mældist 1,7% í september samanborið við 2,2% í ágúst.

Peningastefnunefnd bankans gaf ekki til kynna hvað hún hyggist gera við næstu vaxtaákvörðun sína en markaðsaðilar spá margir að von sé á annarri vaxtalækkun í desember.

Í yfirlýsingunni nefndarinnar segir að nýjustu upplýsingar sýni að ferli bankans að ná verðbólgunni niður sé á réttri braut. Þá hafi nýjar hagtölur, sem gáfu vísbendingar um verri horfur í efnahagsmálum, litað verðbólguhorfur.