Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 50 punkta í gær og eru þeir nú 6,5%. Rök peningastefnunefndar fyrir hækkuninni voru meðal annars þau að nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði fælu í sér töluvert meiri launahækkanir en gert hafi verið ráð fyrir.
Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi Samtaka atvinnulífsins, segir að 50 punkta hækkun komi í sjálfur sér ekki á óvart. Síðustu verðbólgumælingar hafi verið nokkur vonbrigði og ekki sjái alveg fyrir endann á verðbólguskotinu.
„Ég hefði hins vegar talið réttara fyrir nefndina að hækka um 25 punkta þar sem stutt er í næstu ákvörðun og síðustu mánuðir hafa sýnt okkur að horfurnar geta breyst hratt,“ segir hann. „Gjörbreytt framsýn leiðsögn kemur aftur á móti á óvart, ég sé ekki hvernig breytingar milli funda réttlæta slíkan viðsnúning, þó að vissulega hafi horfurnar versnað."
„Ég held að opinberi markaðurinn, sem hefur ítrekað farið fram úr þeim almenna í launahækkunum síðustu misseri, þurfi sérstaklega að taka þetta til sín. Það er verulegt áhyggjuefni að sjá fram á versnandi viðskiptakjör og lítinn framleiðnivöxt á tímum mjög mikilla launahækkana. Ég skil vel að Seðlabankanum hugnist það illa og bregðist við, því til lengdar getur slíkt ekki staðist án þess að það birtist í hærra verðlagi.“
Viðsnúningur milli funda
„Það sem kemur aftur á móti á óvart er viðsnúningur bankans í viðhorfi gagnvart kjarasamningum, sem seðlabankastjóri talaði mjög jákvætt um samningana við undirritun í desember,“ segir Konráð. „Svona viðsnúningur hjálpar ekki trúverðugleika Seðlabankans og hreint út sagt er þetta önnur vaxtaákvörðunin í röð þar sem bankinn gengur á bak orða sinna gagnvart vinnumarkaðnum. Síðast kom í ljós að boltinn var ekki sendur til vinnumarkaðarins, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað, og núna hefur mat á kjarasamningum gjörbreyst á tveimur mánuðum.“
Fjallað er ítarlega um málið Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.