Seðlabanki Íslands telur brýnt að löggjöf um lífeyrissjóði verði endurskoðuð með það í huga að setja skýrari ákvæði um útvistun á mikilvægri starfsemi lífeyrissjóða og takmarkanir á henni. Þetta kemur fram í nýrri umræðuskýrslu bankans um lífeyrissjóði.

Bankinn segir að umrædd ákvæði gætu m.a. falist í að gera kröfu um að ákveðin lágmarks kjarnastarfsemi fari fram innan hvers lífeyrissjóðs, svo sem eigna- og áhættustýring, og að til staðar séu starfsmenn sem geti haft eftirlit með þeim verkefnum sem hefur verið útvistað.

„Það yrði í samræmi við löggjöf á fjármálamarkaði um til dæmis rekstrarfélög verðbréfasjóða og er hugsunin sú að komið sé í veg fyrir að starfsleyfishafi sé skelin ein.“

Sjö lífeyrissjóðir hér á landi útvista nú eignastýringu sinni til viðskiptabanka. Í þessari útvistun felst m.a. að allar fjárfestingarákvarðanir flytjast til viðkomandi banka.

Setja eigi takmörk á fjárfestingu í aðilum útvistunaraðila

Að mati Seðlabankans er umfang fjárfestinga sem tengjast útvistunaraðila sem fer með eignastýringu umhugsunarvert og geti skapað tortryggni um hvort aðrir hagsmunir en sjóðfélaga ráði för í fjárfestingum.

„Seðlabankinn telur rétt að setja takmörk á fjárfestingu lífeyrissjóða í aðilum tengdum útvistunaraðila eignastýringar og rekstraraðila með sambærilegum hætti og gert er í IORP II-tilskipuninni gagnvart fjárfestingum tengdum aðildarfyrirtækjum.“

Fram kemur að verðbréf útgefin af viðskiptabönkum og tengdum aðilum, ásamt innlánum lífeyrissjóða hjá viðskiptabönkum, séu fyrirferðamikil í eignasafni lífeyrissjóða og hafa verið um langa hríð. Vægi einstaka viðskiptabanka sé þó ólíkt á milli lífeyrissjóða.

„Í þeim tilvikum þar sem eignastýringu er útvistað er samþjöppun oftar en ekki í garð þess viðskiptabanka sem annast hana og tengdra félaga.“

Mynd tekin úr umræðuskýrslunni.

Gæta þurfi hagsmunaárekstra

Seðlabankinn segir að í sumum tilvikum hafi framkvæmdastjórar lífeyrissjóðanna og aðrir starfsmenn jafnframt verið starfsmenn viðkomandi banka.

„Seðlabankinn hefur talið þetta fyrirkomulag óheppilegt og að með því kunni að skapast hætta á hagsmunaárekstrum. Seðlabankinn hefur í þeim tilvikum þar sem slíkt fyrirkomulag var fyrir hendi farið fram á að úr því yrði bætt.“

Að því er varðar framkvæmdastjóra telur Seðlabankinn að þótt stjórnir lífeyrissjóða samþykki tilnefningu rekstraraðila um framkvæmdastjóra verði því ekki jafnað við það boðvald sem stjórn hefur yfir framkvæmdastjóra þegar hún ræður hann sjálf og ákveður ráðningarkjör hans.

Í öðrum kafla í skýrslunni kemur fram að Seðlabankinn telji að setja eigi sambærilegar reglur um önnur störf framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lífeyrissjóða og gilda almennt á fjármálamarkaði.

„Þá telur Seðlabankinn brýnt að hugað sé að hagsmunaárekstrum sem geta komið upp vegna starfa þessara einstaklinga í þágu annarra eftirlitskyldra aðila […], þ.e. um það fyrirkomulag að framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs sé jafnframt starfsmaður viðskiptabanka eða annars lífeyrissjóðs.“