Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að hefja reglubundin gjaldeyriskaup á millibankamarkaði. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tilkynnti þetta á ársfundi bankans sem haldinn var í dag.
Nánar tiltekið hyggst Seðlabankinn kaupa 6 milljónir evra á markaðinum í hverri viku. Kaupin munu fara fram á þriðjudögum og fimmtudögum skömmu eftir opnun markaðarins, þrjár milljónir evra í hvort skipti, en færast til næsta viðskiptadags ef dagurinn er frídagur. Fyrstu kaup verða þriðjudaginn 15. apríl nk.
Seðlabankinn mun endurmeta gjaldeyriskaupin þegar aðstæður gefa tilefni til. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bankans.
Meginmarkmiðið með gjaldeyriskaupunum sem nú verði hafin sé að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans sem fjármagnaður sé innanlands og mæta gjaldeyrisþörf ríkissjóðs.
„Rúmur gjaldeyrisforði hefur gegnt veigamiklu hlutverki í að viðhalda stöðugleika og auknum viðnámsþrótti þjóðarbúsins. Horfur eru á að hann minnki lítillega að öðru óbreyttu á næstu misserum vegna erlendra greiðslna sem Seðlabankinn sinnir fyrir hönd ríkissjóðs.
Seðlabankinn metur það jafnframt svo að ríkjandi aðstæður séu hagstæðar til þess að hefja regluleg kaup og að þau muni ekki hafa teljandi áhrif á gengi krónunnar. Seðlabankinn mun eftir sem áður framfylgja gjaldeyrisinngripastefnu sinni til þess að draga úr skammtímasveiflum í gengi krónunnar eins og hann telur tilefni til,“ segir í tilkynningu bankans.
Í tilkynningu bankans kemur fram að Seðlabankinn hafi síðast átt regluleg gjaldeyrisviðskipti á millibankamarkaði í COVID-faraldrinum en þá seldi bankinn jafnvirði 71 ma.kr. af gjaldeyri í reglulegri sölu. Það leiddi til þess að gjaldeyrisforði bankans minnkaði sem þessu svaraði.
Gjaldeyrisforðinn nam 886 ma.kr. í lok árs 2024 sem samsvarar um 118% af forðaviðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (RAM).
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að æskilegt sé að hlutfallið sé á bilinu 100-150% byggt á einkennum og stöðu þjóðarbúskaparins. Núverandi mat Seðlabankans er að neðri mörk forðans ættu að vera um 120%.