Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur, úr 8,5% í 8,0%. Allir nefndarmenn studdu þessa ákvörðun, að því er segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Ákvörðunin er í samræmi við væntinar markaðsaðila miðað við könnun Viðskiptablaðsins. Þá höfðu greiningardeildir Landsbankans og Íslandsbanka spáð 50 punkta lækkun.

Nefndin segir að verðbólga hafi haldið áfram að hjaðna og var 4,6% í janúar. Undirliggjandi verðbólga hafi einnig minnkað og ekki verið minni í þrjú ár. Útlit sé fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum.

„Hægt hefur á vexti eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar og spennan í þjóðarbúinu er í rénun. Dregið hefur úr umsvifum á húsnæðismarkaði og hægt á hækkun húsnæðisverðs,“ segir í yfirlýsingunni.

„Vísbendingar eru þó um að krafturinn í þjóðarbúinu sé meiri en bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga gefa til kynna og áfram mælist nokkur hækkun launakostnaðar.“

Nefndin áréttar að þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað, þá sé enn verðbólguþrýstingur til staðar.

„Það kallar á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist aukin óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.“