Seðlabankinn greip inn í á innlendum gjaldeyrismarkaði í dag og keypti krónur fyrir gjaldeyri með það að markmiði að koma í veg fyrir frekari veikingu krónunnar, samkvæmt óstaðfestum heimildum Viðskiptablaðsins. Um þetta var hávær orðrómur á millibankamarkaði með gjaldeyri í dag.

Þetta fæst ekki staðfest fyrr en Seðlabankinn birtir daglegt yfirlit um inngrip sem ætti að berast eftir nokkra daga.

Fyrstu kaup bankans frá því í janúar?

Síðast keypti Seðlabankinn krónur þann 9. janúar síðastliðinn og þá fyrir um 2,8 milljarða króna. Þá hafði krónan verið að gefa töluvert eftir dagana á undan.

Miðað við þróunina á síðustu vikum vakna spurningar um af hverju Seðlabankinn greip ekki fyrr inn. Evran hækkaði um 1,8% gagnvart krónu milli fimmtudagsins 2. nóvember og mánudagsins þar á eftir eða yfir þrjá viðskiptadaga. Það er hraðari veiking en varð í undanfara þess að Seðlabankinn keypti krónur í janúar síðastliðnum.

Seðlabankinn hefur gefið það út að hann grípi inn í á markaði telji hann sveiflur í verðþróun vera óeðlilega miklar hvort sem það felst í of hraðri styrkingu eða of hraðri veikingu.

Krónan náði sínu sterkasta gildi gagnvart evru í lok ágúst en 29. þess mánaðar var evran að seljast á 141,9 krónur. Síðan þá hefur krónan verið í sterkum veikingarfasa og veikst um 11 krónur fyrir hverja evru. Gengi evru var rétt rúmlega 153 krónur við lokun markaða og hefur ekki mælst veikari síðan um miðjan maí síðastliðinn.