Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að útvíkka svokallaðan lausafjárglugga sem innlánsstofnanir hafa aðgang að, með það að markmiði að þessi fyrirgreiðsla nýtist lánastofnunum til að mæta tímabundnum sveiflum í lausafjárhlutfalli.

Breytingarnar taka gildi frá og með 7. júlí nk. og eru í meginatriðum þær að fallið verður frá kröfu um að viðkomandi mótaðili eigi ekki á sama tíma bundin innlán í Seðlabankanum, segir í tilkynningu á vef bankans.

Ekki hugsað sem peningastefnuaðgerð

Seðlabankinn opnaði umræddan lausafjárglugga í janúar 2022 og fengu innlánsstofnanir aðgang að honum til að bregðast við óvæntri og tímabundinni lausafjárþörf.

„Við endurskoðun á tækjum Seðlabankans hefur bankinn ákveðið að útvíkka þessa lausafjárfyrirgreiðslu þannig að hún nýtist lánastofnunum til að mæta tímabundnum sveiflum í lausafjárhlutfalli,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.

Lausafjárglugginn mun taka til allra lánastofnana og ekki verða sett fjárhæðarmörk á fyrirgreiðslu. Hægt verður að sækja um lausafjárfyrirgreiðslu til 14 daga alla viðskiptadaga Seðlabankans gegn tryggingum sem eru tilgreindar á veðlista bankans.

Seðlabankinn áréttar að þessari fyrirgreiðslu sé ekki ætlað að fjármagna útlánastarfsemi eða aðra ráðstöfun á eignahlið fjármálastofnana.

„Fyrirgreiðslan er því ekki hugsuð sem peningastefnuaðgerð heldur er henni einungis ætlað að auðvelda lánastofnunum að takast á við tímabundnar sveiflur í lausafjárhlutfalli.“

Reglur Seðlabankans um lausafjárhlutfall lánastofnana fela m.a. í sér kröfu um lausafjáreignir að lágmarki 100% af hreinu útflæði lauss fjár næstu 30 daga samtals í öllum gjaldmiðlum, 80% í evrum og 50% í íslenskum krónum.

„Lausafjárstaða lánastofnana er vel yfir lágmörkum Seðlabankans og samanstanda lausafjáreignir þeirra einkum af innstæðum í Seðlabankanum og ríkisbréfum,“ segir bankinn.

„Sú staða getur þó komið upp að einstaka lánastofnanir skorti hágæða lausafjáreignir til að mæta tímabundinni lækkun lausafjárhlutfallsins. Lausafjárglugganum er m.a. ætlað að taka á slíkum aðstæðum.“

Vextir á fyrirgreiðslunni sem hér um ræðir verða 0,5 prósentum hærri en vextir Seðlabankans á 7 daga veðlánum og 1,25 prósentum hærri en meginvextir bankans. Þann 7. júlí nk. verða vextir á 14 daga fyrirgreiðslunni því 8,75%.