Háar eiginfjárkröfur íslenskra banka í alþjóðlegum samanburði eru nauðsynlegar til að tryggja fjármálastöðugleika.
Þetta kemur fram í skrifum Tómasar Brynjólfssonar, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika, í Kalkofninum, vefriti starfsfólks Seðlabankans sem Tómas ritstýrir.
Umræða um hið svokallaða Íslandsálag, hugtak sem notað hefur verið yfir séríslenskar álögur á fjármálafyrirtæki, náði nokkru flugi síðustu vikur sér í lagi eftir að stjórn Arion banka óskaði eftir samrunaviðræðum við Íslandsbanka.
Í hluthafabréfi Jóns Sigurðssonar, forstjóra Stoða í síðasta mánuði, var t.d. bent á að árlegur kostnaður heimila og fyrirtækja vegna íþyngjandi regluverks tapið væri að lágmarki 50-70 milljarðar króna.
„Það er ljóst að árlegur kostnaður heimila og fyrirtækja vegna íþyngjandi regluverks og sértækrar bankaskattlagningar er að lágmarki 50-70 milljarðar króna. Forsvarsmenn Seðlabankans hafa varist gagnrýninni og fullyrt að auknar eiginfjárkröfur sé sá kostnaður sem við þurfum að bera til að varðveita hinn svokallaða íslenska „stöðugleika“. Þótt ég skilji við hvað er átt þá verð ég að vera ósammála þessu,“ skrifaði Jón.
Tómas kemur háum eiginfjárkröfum til varnar í grein sinni og fer yfir mikilvægi þeirra í íslensku efnahagsumhverfi.
Það er óumdeilt að eiginfjárkröfur íslenskra banka eru í dag nokkuð hærri en gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum en Tómas bendir þó á að þær séu nálægt þeim mörkum sem rannsóknir benda til að séu þjóðhagslega hagkvæmar.
Auk þess endurspegli þær áhættuþætti sem einkenni íslenskt efnahags- og fjármálakerfi, þar á meðal smæð og samþjöppun bankakerfisins.
Tómas bendir á að íslenskir bankar starfi í litlu og sveiflukenndu hagkerfi þar sem áhrif fjármálakreppa geta verið meiri en í stærri ríkjum. Því séu strangar eiginfjárkröfur nauðsynlegar til að draga úr líkum á framtíðaráföllum.
Hann bendir jafnframt á að á meðan íslensku bankarnir búi við strangar kröfur, þá hafi þeir einnig hærri arðsemi og sterka eiginfjárstöðu í samanburði við erlenda banka.
Eiginfjárkröfur bankanna samanstanda af þremur meginstoðum: lögbundnum lágmarkskröfum, viðbótarkröfum sem taka mið af áhættu hvers fjármálafyrirtækis og eiginfjáraukum sem settir eru til að mæta sérstökum áhættuþáttum í efnahagskerfinu.
Lágmarkskrafa um eigið fé er sú sama á Íslandi og annars staðar í Evrópu, eða 8% af áhættugrunni. Að auki skulu fjármálafyrirtæki í Evrópu búa yfir svokölluðum verndunarauka sem nemur 2,5% af áhættugrunni.
FME leggur sérstakar viðbótarkröfur á banka, sem í tilfelli Arion banka og Íslandsbanka er 1,8% og 2,5% fyrir Landsbankann. Þessar kröfur hafa lækkað á undanförnum árum, m.a. vegna aukinnar eignadreifingar bankanna.
Til viðbótar við lögbundnu 10,5% kröfuna og viðbótarkröfu fyrir sérhvert fjármálafyrirtæki getur fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands, líkt og sambærilegir aðilar í öðrum Evrópuríkjum, gert kröfu um eiginfjárauka sem taka mið af aðstæðum í innlendu efnahags- og fjármálakerfi. Kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, þ.e. stóru viðskiptabankarnir þrír, bera nú 3% eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis.
Til viðbótar nemur svokallaður kerfisáhættuauki 2% og sveiflujöfnunarauki 2,5% af áhættugrunni bankanna.
Heildarkrafa um eigið fé íslenskra banka er því um 20%, sem samanstendur af 10,5% lágmarkskröfu, um 2% viðbótarkröfu og 7,5% eiginfjáraukum. Seðlabankinn bendir á að þó að há eiginfjárkrafa auki kostnað fjármálafyrirtækja, þá vegi á móti að hún eykur viðnámsþrótt þeirra og dregur úr líkum á að ríkið þurfi að grípa inn í við efnahagsáföll.
Að mati Tómasar eru eiginfjárkröfur íslenskra banka því nauðsynlegar til að tryggja fjármálastöðugleika og draga úr samfélagslegum kostnaði af fjármálakreppum.
Máli sínu til stuðnings bendir hann á að niðurstöður alþjóðlegra rannsókna bendi til þess að eiginfjárhlutföll ættu ekki að vera undir 15% í stærri þróuðum hagkerfum.
„Þótt ekki hafi verið gerð sambærileg greining fyrir íslenska fjármálakerfið má leiða að því líkur að ábatinn fyrir lítið og einsleitt hagkerfi með fáa stóra banka sé nærri efri hluta þessa 15-20% bils. Heildarkröfur til stóru íslensku bankanna virðast því ekki fjarri því sem teljast ætti þjóðhaglega ábatasamt.“
Tómas segir að þó eiginfjárkröfur séu ekki meitlaðar í stein sé lítið tilefni að hans mati að slaka á kröfunum. Eftir því sem dregur úr einsleitni hagkerfisins og aukinn efnahagsstöðugleiki festir sig í sessi gætu þó myndast aðstæður til lækkunar.
„Til þess að lækka megi eiginfjárauka án þess að stöðugleika sé ógnað þarf hagstjórnin að geta brugðist með afgerandi og trúverðugum hætti við ytri áföllum í líkingu við þau sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir á undanförnum árum. Þar skipta trúverðugleiki peningastefnunnar, sterk ytri staða þjóðarbúsins og lág skuldahlutföll ríkissjóðs hvað mestu máli,“ skrifar Tómas.
„Þá skiptir tímasetning lækkunar eiginfjárkrafna máli. Þar þarf bæði að horfa til þess að meiri vissa fáist um áhrif innleiðingar næmari áhættuvoga á fasteignalánum á eiginfjárhlutföll sem fjallað er um að framan og til stöðu efnahagsmála á breiðum grunni. Við aðstæður hárra verðbólguvæntinga og nokkurs þróttar í raunhagkerfinu gæti lækkun eiginfjárkrafna hvatt eftirspurn og hægt á aðlögun hagkerfisins að auknum stöðugleika og minni verðbólgu,“ skrifar Tómas að lokum.