Nordic Restaurant við Hellu ákvað fyrir rúmum einum og hálfum mánuði síðan að leggja 15% þjónustugjald á alla reikninga veitingastaðarins. Maður að nafni Bæring Jóhann Björgvinsson vakti athygli á þessu á Facebook síðunni „Vertu á verði – eftirlit með verðlagi“ og spurði hvort þetta væri löglegt.
Í færslu hans má sjá límmiða sem á stendur: „Verðin sem sýnd eru innihalda 11% virðisaukaskatt, en innihalda ekki 15% þjónustugjald.
Dmitrjis Stals, stofnandi og forstjóri Legendary Hotels and Resorts, segir að ákvörðunin um að leggja 15% þjónustugjald á veitingastaðnum Nordic Restaurant við Hellu hafi verið tilraun. Hann segir að íslenskur lögfræðingur hafi sagt honum að gjaldið væri löglegt og að þjórfé sé eðlilegt víðs vegar um heiminn.
„Ef við förum til Bandaríkjanna eða Bretlands þá er mjög eðlilegt að fólk borgi þjórfé. Við byrjuðum með þetta sem tilraun og okkur var sagt að svo lengi sem við tökum það skýrt fram að gjaldið sé til staðar þá er þetta ekki ólöglegt,“ segir Dmitrjis.
Hann segir að viðskiptavinum sé ekki skylt að greiða gjaldið og ef þeir vilji ekki borga gjaldið þá þurfi þeir einfaldlega að biðja um að það verði fjarlægt. Aðspurður um hvort sú hefð skapi ekki vandræðalegheit fyrir viðskiptavin ítrekar Dmitrjis þær hefðir sem tíðkast erlendis.
„Við erum í landi þar sem verkalýðsfélögin hafa verið að sjá til þess að laun hækki og hækki og við þurfum einfaldlega að geta staðið undir kostnaði.“
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtaka, segir þetta vera skýrt brot á neytendalögum. Samkvæmt annarri grein laga um verðmerkingar er skylt að vermerkja vöru og þjónustu með söluverði.
„Við munum tilkynna þeim þetta formlega strax eftir helgi.“
„Verðmerking skal vera skýr svo greinilegt sé til hvaða vöru verðmerkingin vísar. Auðvelt á að vera að sjá verð vöru og þjónustu á sölustað. Ef fleiri en ein verðmerking er á vöru, skal koma skýrt fram hvaða verð neytendur eiga að greiða. Uppgefið söluverð skal vera endanlegt verð með virðisaukaskatti. Ef annar kostnaður bætist við söluverðið þarf að taka það sérstaklega fram. Kjósi fyrirtæki að innheimta sérstakan kostnað í kreditkortaviðskiptum skal það að minnsta kosti koma skýrt fram við inngöngudyr fyrirtækis.“
Breki segir að lögin gætu ekki verið skýrari en að það sé Neytendastofu að úrskurða um það. „Við munum tilkynna þeim þetta formlega strax eftir helgi.“