HB Grandi tapaði 252 þúsundum evra eða sem nemur um 30 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri frá fyrirtækinu sem birt var í gærkvöldi. Þá var hagnaður á fyrri árshelmingi 3,1 milljón evra.
Rekstrartekjur samstæðunnar á öðrum árfjórðungi voru 49,8 milljónum evra og 100,0 milljónum evra á fyrri árshelmingi. EBITDA nam 2,8 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi og 10,6 milljónum evra á fyrri árshelmingi.
Í byrjun júní seldi eignarhaldsfélagið Deris S.A., sem HB Grandi á 20% hlut í, allar eignir fiskeldisfyrirtækisins Salmones Friosur S.A. til Exportadoa Los Fiordos Limitada (dótturfélags Agrosuper S.A). Lok viðskipta eru áætluð á þriðja ársfjórðungi 2018 en viðskiptin eru háð samþykki stjórnvalda í Síle. Söluverðið var 229 milljónir usd eða um 195 milljónir evra á söludegi. Áhrif sölunnar á rekstarafkomu Deris S.A. að teknu tilliti til skatta eru áætluð 103 milljónir usd (um 88 milljónir evra) og 20% hlutur HB Granda í þeim 21 milljón usd (18 milljónir evra).
„Taprekstur á HB Granda á öðrum ársfjórðungi er óviðunandi. Skýringar eru m.a. hátt gengi íslensku krónunnar sem dró úr arðsemi fiskvinnslunnar. Þá taka veiðigjöld ekki tillit til arðsemi af veiðum einstakra fisktegunda, því grunnur veiðigjaldsins er afkoma greinarinnar árið 2015. Ég sé góð færi til að bæta rekstur HB Granda. Veiðar má auka með auknum veiðiheimildum og arðsemina má bæta með breytingum á skipum og flota. Verið er að skoða fjárfestingar í vinnslu og tæknibúnaði sem ættu að hafa jákvæð áhrif á reksturinn þegar fram í sækir. Einnig er í athugun að auka samstarf á sviði markaðs- og sölumála og jafnvel fjárfesta í erlendum sölufélögum,” segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda.