Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í dag að 80% tollur á kínverskar vörur „virðist réttur“. Hann lét ummælin falla í aðdraganda fundarhalda um helgina milli forsvarsmanna stjórnvalda Bandaríkjanna og Kína um tollamál.
Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Jamieson Greer, helsti samningamaður bandarísku ríkisstjórnarinnar í tollamálum, mundu funda með He Lifeng, fulltrúa kínverskra stjórnvalda, í Sviss.
Í umfjöllun Reuters segir að fundarhöldin gætu markað fyrsta skrefið í átt að því að ná samkomulagi í tollamálum milli landanna tveggja.
Trump sagði í færslu á samfélagsmiðlinum sínum Truth Social að stjórnvöld í Kína ættu að vera opnari fyrir þátttöku bandarískra aðila á mörkuðum þar í landi.
„80% tollur á Kína virðist réttur (e. seems right). Þetta er í höndum Scott B,“ skrifaði Trump.
Frá því að hann tók við embætti forseta í janúar hefur Trump hækkað tolla á vöruinnflutning frá Kína upp í 145%. Umræddir tollar leggjast ofan á tolla sem hann lagði á kínverskar vörur á fyrsta kjörtímabili sínu og aðra tolla Biden ríkisstjórnarinnar.
Kínversk stjórnvöld svöruðu í sömu mynt með því setja á takmarkanir á útflutning á sjaldgæfa jarðmálma og hækka tolla á bandarískar vörur upp í 125%, ásamt viðbótartolla á ákveðna vöruflokka eins og sojabaunir og fljótandi jarðgas.