Sir Wyn Williams, formaður opinberrar rannsóknar á breska póstmálinu, segir að 13 einstaklingar hafi svipt sig lífi vegna málsins. Þar að auki hafi 59 aðrir hugleitt sjálfsvíg og 10 reynt það.
Niðurstaðan byggir á samtölum við póstmeistarana og aðstandendur. The Daily Telegraph fjallar ítarlega um málið á vef sínum.
Málið snýr að því að hugbúnaðurinn Horizon, sem var þróaður af Fujitsu fyrir bresku póstþjónustuna, sýndi rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu pósthúsa á tímabilinu 1999 til 2015. Þúsundir undirpóstmeistara voru ranglega sakaðir um fjárdrátt og mörg hundruð sóttir til saka.
Í nýrri 162 blaðsíðna skýrslu, sem birt var í dag segir Sir Wyn að „líklegt sé að um 1.000 einstaklingar hafi verið ákærðir og sakfelldir á grundvelli gagna úr Horizon-kerfinu“.
Stjórnendur héldu uppi „blekkingum“
Í skýrslunni segir að æðstu stjórnendur Post Office hafi vitað að kerfið væri gallað, en „viðhéldu blekkingunni um að hugbúnaður væri alltaf réttur“.

Sir Wyn sagði einnig að „algjörlega óásættanleg hegðun“ hefði átt sér stað af hálfu fjölda einstaklinga sem störfuðu fyrir eða tengdust Breska póstinum og Fujitsu.
Frá því að rannsóknin hófst í febrúar 2022 hafa margir vitnisburðir bent til þess að starfsfólk – bæði stjórnendur og almennt starfsfólk – hafi haft vitneskju um villur og galla í kerfinu. Þetta er í fyrsta sinn sem formaður rannsóknarinnar staðfestir slíkt opinberlega.
Þó að Sir Wyn hafi ekki heimild til að úrskurða um refsiverða háttsemi er sakamálarannsókn í gangi samhliða. Lögreglan í London greindi nýverið frá því að hún væri að rannsaka yfir 45 einstaklinga og hefðu sjö þeirra verið formlega fengið réttarstöðu sakborninga.
Tillögur: Bætur, lögfræðiaðstoð og sáttameðferð
Í skýrslunni eru lagðar fram ýmsar tillögur, þar á meðal þessar.
- Að fjölskyldur þeirra sem létust fái bætur
- Að ríkið greiði fyrir lögfræðiaðstoð þolenda
- Að sett verði á laggirnar sáttameðferðarverkefni í samstarfi við ríkið, Fujitsu og Breska póstsinn
Rannsóknin byggði á 298 vitnisburðum og yfirferð um 2,3 milljóna skjala. Meðal vitna voru Paula Vennells, fyrrverandi forstjóri Post Office, og Sir Alan Bates, sem barðist fyrir réttlæti og varð aðalpersóna í sjónvarpsþáttum ITV.
Skýrslan opinberar að þjáningar þolenda hafi verið mun meiri en áður var talið.

Sjálfsvíg þekktra fórnarlamba
Tveir einstaklingar eru nefndir í skýrslunni með nafni. Sá fyrri er Martin Griffiths. Hann svipti sig lífi árið 2013 eftir að hafa verið ranglega sakaður um að hafa stolið 100.000 pundum úr pósthúsinu sínu í Cheshire. Hann var 59 ára, tveggja barna faðir. Post Office reyndi að þagga málið niður með því að borga eiginkonu hans, Gina, 140.000 pund í áföngum gegn samningi með þagnarskylduákvæði.
Hinn sem nefndur er með nafni er Michael Mann, fyrrverandi yfirmaður hjá Breska póstinum. Hann tók sitt eigið líf eftir að hafa verið yfirheyrður af innri rannsóknardeild póstins árið 2013.

Alls höfðu 59 manns hugleitt sjálfsvíg og 10 reynt það. Í júlí 2020 fann lögregla lík Peter Huxham, póstmeistara í Devon, sem hafði afplánað átta mánaða fangelsi vegna meints 16.000 punda fjárdráttar. Hann bjó einn, hafði misst eiginkonu sína eftir 22 ára hjónaband og glímdi við áfengisvanda og andlega erfiðleika.
Jayakanthan Sivasubramaniam, tveggja barna faðir, svipti sig lífi örfáum klukkustundum eftir að rannsakendur Post Office réðust inn í útibú hans vegna meints 179.000 punda fjárdráttar. Eiginkona hans, Gowri, sagði við The Times: „Maðurinn minn fékk ekki tækifæri til að verja sig og svipti sig lífi.“ Breski pósturinn hefur neitað að greiða henni bætur.
Árið 2012 svipti Louise Mann, eiginkona póstmeistara í Devon, sig lífi af skömm eftir að hafa verið stimpluð sem þjófur. Maður hennar, Charles, missti bæði vinnuna og eiginkonu sína og fékk engar bætur.
„Gallað kerfi með ímynduðu tapi“
Í inngangi skýrslunnar greinir Sir Wyn frá því að áður en Horizon var tekið í notkun hefðu starfsmenn Fujitsu komist að því að eldri útgáfa þess, Legacy Horizon, gæti sýnt „tap eða hagnað sem voru byggð á villum en ekki raunveruleikanum“.
Hann skrifar: „Ég tel, byggt á gögnum og vitnisburðum, að fjöldi starfsmanna Bresku póstþjónustunnar – bæði hærra og lægra settir – hafi vitað eða átt að vita að kerfið væri gallað með þessum hætti.“ Samt hafi stofnunin „viðhaldið blekkingunni um að gögnin væru alltaf nákvæm“.
Legacy Horizon var skipt út árið 2010 fyrir Horizon Online, sem þó hafði einnig marga villur sem leiddu til „óraunverulegs“ hagnaðar eða taps. Sir Wyn telur einnig að starfsmenn hafi vitað um þessa galla.
Í annarri athugasemd segir hann að þeir sem voru sakfelldir „eigi rétt á að vera kallaðir fórnarlömb algerlega óásættanlegrar hegðunar“ – hvort heldur sem hún hafi verið refsiverð eða ekki.