Carlos Ghosn, fyrrum forstjóri Nissan, varar við því að japanski bílaframleiðandinn gæti orðið fórnarlamb blóðbaðs ef það færi í gegn með samruna sinn við Honda. Hann lét ummælin falla í viðtali við fréttastofuna CNBC.

Honda og Nissan hafa þegar undirritað viljayfirlýsingu um að hefja samrunaviðræður. Forráðamenn félaganna hafa tilkynnt að stefna sé að því að ná endanlegu samkomulagi fyrir júní á næsta ári og ljúka samrunanum fyrir árið 2026.

Fyrrum forstjórinn vakti mikla athygli á sínum tíma en hann var handtekinn árið 2021 fyrir að hafa vísvitandi greint vitlaust frá tekjum sínum og notað pening frá fyrirtækinu til að fjármagna persónulega neyslu. Hann hefur hins vegar neitað sök og segir japanska réttarkerfið vera svikamyllu.

„Ég held að Honda verði án nokkurs vafa við stýrið í þessum samruna, sem er mjög sorglegt að sjá eftir að hafa stýrt Nissan í 19 ár og gert Nissan að leiðandi bílaframleiðanda innan geirans. Það er leitt að sjá að Nissan verði fórnarlamb blóðbaðs vegna þess að það er alger tvíverknaður milli fyrirtækjanna tveggja,“ segir Ghosn.

Samrunaáformin fela meðal annars í sér að stofnað verði sérstakt móðurfélag sem verði skráð á japanska hlutabréfamarkaðinn árið 2026.

Markaðsvirði félagsins, sé miðað við núverandi markaðsvirði Nissan og Honda, yrði í kringum 54 milljarðar dala og um 58 milljarðar dala ef Mistubishi, sem hefur líka undirritað aðskilda viljayfirlýsingu, verður hluti af samrunanum.