Kínverski milljarðamæringurinn og bankastjórinn Bao Fan hefur sagt af sér sem stjórnarformaður China Renaissance Holdings Ltd. en hann hefur ekki sést í rúmlega ár.

Í tilkynningu frá bankanum segir að hann hafi sagt af sér vegna „heilsufarsástæðna og til að eyða meiri tíma með fjölskyldunni.“

Bao Fan hvarf í febrúar á síðasta ári og olli það miklu uppnámi innan viðskipta- og fjárfestingasamfélagsins í Kína. Nokkrum dögum síðar sagði China Renaissance að Bao væri að vinna með yfirvöldum að rannsóknarmáli.

Bankinn bætir við að meðstofnandi China Renaissance, Xie Yi Jing, muni taka við af honum en veitti engar frekari upplýsingar um það hvar Bao væri staddur. Bao er að vísu ekki fyrsti kínverski milljarðamæringurinn sem hverfur skyndilega en síðan Xi Jinping tók við völdum árið 2012 hafa fjölmargir einstaklingar úr viðskiptalífinu horfið.

Árið 2015 hurfu fimm háttsettir fyrirtækjaeigendur, þar á meðal Guo Guangchan, forstjóri Fosun International, sem á enska knattspyrnuliðið Wolverhampton Wanderes F.C. Tveimur árum seinna hvarf Xiao Jianhua, einn af ríkustu mönnum í Kína, skyndilega en hann var svo dæmdur í fangelsi á síðasta ári fyrir spillingu. Fasteignarisinn Ren Zhiqiang hvarf svo í mars 2020 eftir að hafa kallað Xi Jinping trúð.

Eitt frægasta mál hingað til hefur þó eflaust verið hvarf Jack Ma, stofnanda Alibaba, en hann hvarf árið 2020 í þrjá mánuði. Hann hafði gagnrýnt kínverska markaðseftirlitið opinberlega rétt áður en greiðslufyrirtæki hans, Ant Financial, átti að fara á markað.