Ársreikningar fyrir 128 af 237 kirkjugörðum landsins vegna ársins 2021 höfðu borist Ríkisendurskoðun, sem hefur eftirlit með ársreikningum kirkjugarða, í lok desember 2022. Hlutfall ársreikninga kirkjugarða sem hafði verið skilað inn til Ríkisendurskoðunar sex mánuðum eftir eindaga skila var því 54%.
„Skil ársreikninga kirkjugarða hafa farið stigversnandi síðastliðin ár og eru að mati Ríkisendurskoðunar óviðunandi. Skilin voru um 76% vegna rekstrarársins 2020 og um 82% vegna rekstrarársins 2019,“ segir í tilkynningu Ríkisendurskoðunar.
Ríkisendurskoðun vekur athygli á að kirkjugarðsgjöld vegna þeirra kirkjugarða sem skiluðu ársreikningi vegna rekstrarársins 2020 námu 998,6 milljónum króna. Í innkomnum ársreikningum fyrir rekstrarárið 2021 nema 394,9 milljónum króna.
„Skýringuna má rekja til þess að lang stærsti kirkjugarður landsins, Kirkjugarðar Reykjavíkur, sem voru með um 60% af kirkjugarðsgjöldum vegna rekstrarársins 2020 hafa ekki skilað ársreikningi fyrir 2021.“
![](http://vb.overcastcdn.com/images/121832.width-1160.png)