Í nýrri grein Arnar Haukssonar, sérfræðings á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands, segir hann að eiginfjárkröfur sem gerðar eru til kerfislega mikilvægra banka (KMB) hér á landi séu almennt sambærilegar eða jafnvel lægri en kröfur sem sambærilegir bankar á Norðurlöndum gera.
Í greininni ber hann saman kerfislega mikilvægu bankana þrjá, Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankann, við fimm banka í Danmörku og fimm banka í Noregi.
Greiningin virðist svara gagnrýni sem sett var fram í nýlegu fjárfestabréfi Stoða, þar sem því var haldið fram að eiginfjárkröfur íslenskra banka væru tvöfalt hærri en á Norðurlöndum og meginástæða þess að vaxtamunur væri hærri hér á landi.
Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, sagði að vaxtamunur á Íslandi væri hærri en á Norðurlöndunum.
„Að gefnu tilefni er rétt að ítreka, það sem ég hef margoft bent á, að meginástæðan fyrir háum vaxtamun hérlendis er að eiginfjárkröfur á Íslandi eru tvöfaldar á við það sem þekkist á Norðurlöndunum. Þannig þurfa íslenskir bankar að ávaxta tvöfalt meira eigið fé en hinir erlendu,” skrifaði Jón.
Örn segir kröfurnar í grunninn sambærilegar við það sem gerist hjá svipuðum bönkum erlendis, ef litið er fram hjá eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis.
Í árslok 2024 var meðaleiginfjárhlutfall KMB 23,4% en meðal samanburðarbankanna í Danmörku og Noregi var það 22,4%, segir í grein Arnar.
Lágmarkskrafa Seðlabankans fyrir íslensku bankana var að meðaltali 19,9%, samanborið við 17,2% hjá samanburðarhópnum.
Þar sem íslensku bankarnir bera 2–3 prósentustiga eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis, sem samanburðarbankarnir þurfa ekki að uppfylla, lækka kröfurnar niður í 16,9% ef sá þáttur er undanskilinn.
Það er 0,3 prósentustigum lægra en kröfurnar á samanburðarbankana.
Hærra eigið fé skýrist af áhættugrunni
Í grein Arnar kemur fram að hlutfall eigin fjár af heildareignum var 13,9% hjá KMB en 11,5% hjá samanburðarbönkunum.
Örn bendir á að þessi munur endurspegli ekki strangara regluverk, heldur að íslensku bankarnir hafi hærri áhættugrunn í hlutfalli við heildareignir (63% á móti 51%).
Samsetning eigna er meginástæðan, þar sem hærra hlutfall útlána fellur í flokka með hærri áhættuvog, svo sem fyrirtækjalán (100% áhættuvog) miðað við íbúðalán (35% áhættuvog). Norðurlandabankar í samanburði eru með hærra hlutfall íbúðalána eða lífeyrissjóðseigna sem bindast ekki eiginfé.
Vaxtamunur og arðsemi
Vaxtamunur íslensku bankanna var 2,9% árið 2024, samanborið við 2,5% hjá samanburðarhópnum.
Ef hlutfall eigin fjár væri það sama og á Norðurlöndunum hefði vaxtamunurinn lækkað í 2,7% og mismunurinn því helmingast.
Arðsemi eigin fjár KMB var 12,1% árið 2024, lítillega lægri en 12,9% hjá samanburðarbankunum. Þegar arðsemi er mæld sem hlutfall af heildareignum eru íslensku bankarnir hins vegar í efri hluta hópsins, með 1,7% á móti 1,5% hjá samanburðarhópnum.
Íslensku bankarnir hafa náð umtalsverðum árangri í að lækka kostnaðarhlutfall síðustu ár í um 17 prósentustig frá 2018, samanborið við 11 stig hjá samanburðarhópnum. Kostnaður sem hlutfall af heildareignum var árið 2024 1,6% bæði hjá íslenskum og norrænum bönkum.
Hins vegar er skattbyrði bankanna hér á landi verulega þyngri. Sértækir skattar námu 1,2–1,4% af áhættuvegnum eignum árið 2024 en voru að jafnaði 0,3–0,6% á Norðurlöndum. Þar að auki er vaxtalaus bindiskylda 3% á Íslandi, sem er ekki við lýði í samanburðarlöndunum.
„Ástæðan fyrir því að eigið fé íslensku bankanna er meira en almennt gerist er sú að íslensku bankarnir nota staðalaðferð við útreikning á áhættuvegnum eignum og eins er samsetning eigna á efnahagsreikningi þannig að áhættugrunnur verður hlutfallslega hærra hlutfall af heildareignum en hjá sambærilegum bönkum á Norðurlöndunum. Eiginfjárhlutföll íslensku bankanna eru sambærileg og jafnvel lægri miðað við það sem gerist hjá sambærilegum bönkum á Norðurlöndunum, sérstaklega þegar tillit hefur verið tekið til þess að íslensku bankarnir eru kerfislega mikilvægir. Ekki er hægt að sjá að eiginfjárkröfur sem gerðar eru til KMB séu meiri en fyrir sambærilega banka á Norðurlöndunum,” skrifar Örn.