Í nýrri grein Arnar Haukssonar, sérfræðings á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands, segir hann að eiginfjárkröfur sem gerðar eru til kerfislega mikilvægra banka (KMB) hér á landi séu almennt sambærilegar eða jafnvel lægri en kröfur sem sambærilegir bankar á Norðurlöndum gera.

Í greininni ber hann saman kerfislega mikilvægu bankana þrjá, Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankann, við fimm banka í Danmörku og fimm banka í Noregi.

Greiningin virðist svara gagnrýni sem sett var fram í nýlegu fjárfestabréfi Stoða, þar sem því var haldið fram að eiginfjárkröfur íslenskra banka væru tvöfalt hærri en á Norðurlöndum og meginástæða þess að vaxtamunur væri hærri hér á landi.

Jón Sigurðs­son, for­stjóri Stoða, sagði að vaxta­munur á Ís­landi væri hærri en á Norður­löndunum.

„Að gefnu til­efni er rétt að ítreka, það sem ég hef marg­oft bent á, að megin­ástæðan fyrir háum vaxta­mun hér­lendis er að eigin­fjárkröfur á Ís­landi eru tvöfaldar á við það sem þekkist á Norður­löndunum. Þannig þurfa ís­lenskir bankar að ávaxta tvöfalt meira eigið fé en hinir er­lendu,” skrifaði Jón.

Örn segir kröfurnar í grunninn sam­bæri­legar við það sem gerist hjá svipuðum bönkum er­lendis, ef litið er fram hjá eigin­fjárauka vegna kerfis­legs mikilvægis.

Í árs­lok 2024 var meða­leigin­fjár­hlut­fall KMB 23,4% en meðal saman­burðar­bankanna í Dan­mörku og Noregi var það 22,4%, segir í grein Arnar.

Lág­marks­krafa Seðla­bankans fyrir ís­lensku bankana var að meðaltali 19,9%, saman­borið við 17,2% hjá saman­burðar­hópnum.

Þar sem ís­lensku bankarnir bera 2–3 pró­sentu­stiga eigin­fjárauka vegna kerfis­legs mikilvægis, sem saman­burðar­bankarnir þurfa ekki að upp­fylla, lækka kröfurnar niður í 16,9% ef sá þáttur er undan­skilinn.

Það er 0,3 pró­sentu­stigum lægra en kröfurnar á saman­burðar­bankana.

Hærra eigið fé skýrist af áhættu­grunni

Í grein Arnar kemur fram að hlut­fall eigin fjár af heildar­eignum var 13,9% hjá KMB en 11,5% hjá saman­burðar­bönkunum.

Örn bendir á að þessi munur endur­spegli ekki strangara reglu­verk, heldur að ís­lensku bankarnir hafi hærri áhættu­grunn í hlut­falli við heildar­eignir (63% á móti 51%).

Sam­setning eigna er megin­ástæðan, þar sem hærra hlut­fall útlána fellur í flokka með hærri áhættu­vog, svo sem fyrir­tækjalán (100% áhættu­vog) miðað við íbúðalán (35% áhættu­vog). Norður­landa­bankar í saman­burði eru með hærra hlut­fall íbúðalána eða líf­eyris­sjóðs­eigna sem bindast ekki eigin­fé.

Vaxta­munur og arð­semi

Vaxta­munur ís­lensku bankanna var 2,9% árið 2024, saman­borið við 2,5% hjá saman­burðar­hópnum.

Ef hlut­fall eigin fjár væri það sama og á Norður­löndunum hefði vaxta­munurinn lækkað í 2,7% og mis­munurinn því helmingast.

Arð­semi eigin fjár KMB var 12,1% árið 2024, lítil­lega lægri en 12,9% hjá saman­burðar­bankunum. Þegar arð­semi er mæld sem hlut­fall af heildar­eignum eru ís­lensku bankarnir hins vegar í efri hluta hópsins, með 1,7% á móti 1,5% hjá saman­burðar­hópnum.

Ís­lensku bankarnir hafa náð um­tals­verðum árangri í að lækka kostnaðar­hlut­fall síðustu ár í um 17 pró­sentu­stig frá 2018, saman­borið við 11 stig hjá saman­burðar­hópnum. Kostnaður sem hlut­fall af heildar­eignum var árið 2024 1,6% bæði hjá ís­lenskum og norrænum bönkum.

Hins vegar er skatt­byrði bankanna hér á landi veru­lega þyngri. Sértækir skattar námu 1,2–1,4% af áhættu­vegnum eignum árið 2024 en voru að jafnaði 0,3–0,6% á Norður­löndum. Þar að auki er vaxta­laus bindi­skylda 3% á Ís­landi, sem er ekki við lýði í saman­burðar­löndunum.

„Ástæðan fyrir því að eigið fé ís­lensku bankanna er meira en al­mennt gerist er sú að ís­lensku bankarnir nota staðalað­ferð við út­reikning á áhættu­vegnum eignum og eins er sam­setning eigna á efna­hags­reikningi þannig að áhættu­grunnur verður hlut­falls­lega hærra hlut­fall af heildar­eignum en hjá sam­bæri­legum bönkum á Norður­löndunum. Eigin­fjár­hlut­föll ís­lensku bankanna eru sam­bæri­leg og jafn­vel lægri miðað við það sem gerist hjá sam­bæri­legum bönkum á Norður­löndunum, sér­stak­lega þegar til­lit hefur verið tekið til þess að ís­lensku bankarnir eru kerfis­lega mikilvægir. Ekki er hægt að sjá að eigin­fjárkröfur sem gerðar eru til KMB séu meiri en fyrir sam­bæri­lega banka á Norður­löndunum,” skrifar Örn.