Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, segir að félagið hafi óskað eftir hækkun leiguverðs um 1,1% við velferðarráð borgarinnar samhliða kynningu vegna tillagna um breytingar á leiguverðsgrunni félagsins síðastliðið sumar.
Í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur um þetta mál megi þó segja að orðalag í ársreikningi hafi mátt vera með öðrum og skýrari hætti.
Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, segir að félagið hafi óskað eftir hækkun leiguverðs um 1,1% við velferðarráð borgarinnar samhliða kynningu vegna tillagna um breytingar á leiguverðsgrunni félagsins síðastliðið sumar.
Í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur um þetta mál megi þó segja að orðalag í ársreikningi hafi mátt vera með öðrum og skýrari hætti.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um í vikunni, þá kom fram í ársreikningi Félagsbústaða, dótturfélagi Reykjavíkurborgar, að langtímaáætlanir um rekstur og sjóðstreymi félagsins beri með sér að félagið munu ekki geta staðið undir aukinni greiðslubyrði lána sem tekin eru til fjármögnunar endurbóta og meiriháttar viðhalds.
Stjórn Félagsbústaða sagði að samhliða uppfærslu á leiguverðsgrunni á fyrri hluta árs 2023 hafi hún lagt til hækkun leiguverðs um 1,1%. „Tillagan fékk ekki brautargengi í velferðarráði,“ segir í skýrslu stjórnar.
Velferðarsvið borgarinnar sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem það sagðist ekki kannast við að stjórn Félagsbústaða hafi lagt inn tillögu til velferðarráðs um 1,1% leiguverðshækkun. Jafnframt kom fram að velferðarsvið hefði sent Félagsbústöðum ábendingu vegna málsins.
Tillaga um leiguverðshækkun ekki tekin fyrir
Sigrún segir í samtali við Viðskiptablaðið að gerð hafi verið grein fyrir ósk um hækkun samhliða kynningu á endurskoðuðum leiguverðsgrunni félagsins. Breyting á leiguverðsgrunni Félagsbústaða hafi síðar verið tekin fyrir og samþykkt af velferðarráði.
Í fundargerðum velferðarráðs síðastliðið ár kemur fram að forsvarsmenn Félagsbústaða héldu kynningu á endurskoðuðu leiguverðslíkani Félagsbústaða þann 24. maí 2023. Kynningin sjálf var ekki birt með fundargerðinni þar sem trúnaður ríkti um málið á þeim tíma.
Þann 6. september sl. var svo lögð fram tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs borgarinnar um breytingu á leiguverðslíkani Félagsbústaða. Í fylgiskjali sem fylgdi tillögu sviðsstjóra er ekki minnst á mat Félagsbústaða að hækka þyrfti leiguverð sérstaklega.
Sigrún segir að tillögur félagsins um leiguverðshækkanir þurfi að fara í gegnum velferðarráð. Fáist samþykki frá ráðinu er slík tillaga í kjölfarið borin undir borgarráð. Þetta sé í samræmi við samþykktir Félagsbústaða þar sem fram kemur að ákvörðun leiguverðs leiguíbúða skuli vera í höndum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Hækkunarþörf metin á 6,5% - yrði áfram töluvert undir markaðsleigu
Haraldur Flosi Tryggvason, fráfarandi stjórnarformaður Félagsbústaða, sagði í tíufréttum RÚV í vikunni að núverandi áætlun félagsins meti hækkunarþörf á 6,5%. Sigrún staðfestir þetta og segir félagið þurfa að ráðast í slíka verðhækkun.
„Félagið hefur stækkað töluvert á undanförnum árum. Það hefur verið mikið viðhald og mikið um endurnýjanir á íbúðum vegna leigjendaskipta. Þetta kostar allt sitt auk þess sem vextir hafa hækkað. Við erum því að óska eftir því að leiguverð hækki, auk hagræðingar í rekstrinum.“
Sigrún áréttar að leiguverð Félagsbústaði yrði áfram undir markaðsleigu. Samkvæmt áhrifaskýrslu félagsins sem gefin er út árlega var leiguverð Félagsbústaða 73% af meðalleiguverði i Reykjavík á liðnu ári.
Tillaga um hækkun leiguverðs er í samræmi við ákvæði eigendastefnu borgarinnar sem kveður á um að reksturinn eigi að vera sjálfbær. Það feli í sér að veltufé frá rekstri þarf að duga fyrir afborgunum á langtímalánum.
„Það hefur yfirleitt gert það en það er ekki raunin núna,“ segir Sigrún og ítrekar ofangreindar áskoranir hjá félaginu upp á síðkastið. „Við erum alltaf í þessum barningi að vera réttum megin við núllið.“
Stöðva tímabundið kaup á markaði
Í nýjustu fundargerð stjórnar Félagsbústaða frá 11. janúar sl. kemur fram að stjórn félagsins hafi ákveðið að leggja fyrir framkvæmdastjóra að ekki yrðu keyptar íbúðir á almennum markaði um sinn, m.a. í ljósi þróun vaxtakjara og íbúðaverðs.
Tekið er fram að ákvörðunin um tímabundna stöðvun íbúðakaupa á markaði verði tekin til endurskoðunar þegar fyrir liggja tillögur starfshóps sem Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, skipaði síðastliðið haust. Hlutverk hópsins er að greina stöðu félagsins og koma með tillögur að viðbrögðum.