Borgarstjóri segir Framsóknarflokkinn hafa þurft að svara fyrir mörg leiðindamál frá fyrri kjörtímabilum.

Framsóknarflokkurinn mælist með 3,3% í nýrri könnun Gallup, sem Viðskiptablaðið greinir frá. Segja má að fylgi flokksins hafi verið á stöðugri niðurleið síðan í kosningunum 2022 þegar flokkurinn fékk 18,7%.

„Við vorum kosin til að gera breytingar í borginni og þetta gefur vísbendingar um að við þurfum að herða taktinn svo borgarbúar skynji betur þær breytingar. Við tökum það til okkar,“ segir Einar Þorsteinsson, borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins.

Höldum ótrauð áfram

„Svo höfum við þurft að svara fyrir mörg leiðindamál frá fyrri kjörtímabilum og það hefur eflaust áhrif á fylgið," segir Einar.

„Okkur tekst greinilega ekki nægilega vel að koma til skila þeim árangri sem við höfum náð t.a.m. í því að snúa við miklum hallarekstri í afgang. Við höldum þó ótrauð áfram og erum þess fullviss að þegar dregur nær kosningum munum við geta sýnt kjósendum að við höfum náð miklum árangri, í rekstri, leikskólamálum og húsnæðismálum svo fátt eitt sé nefnt.“

Könnun Gallup sýnir að staða staða Samfylkingarinnar og Viðreisnar er allt önnur en staða Framsóknar og Pírata en saman mynda þessir flokkar meirihluta. Á meðan fylgið hrynur af Pírötum og Framsóknarflokkur er varla skugginn af sjálfum sér miðað við í kosningunum þá bætir Viðreisn við sig fylgi milli kannana og Samfylkingin siglir nokkuð lygnan sjó.

Spurður hvernig hann útskýri þetta svarar Einar: „Mér sýnist þessi þróun haldast í hendur við niðurstöðu nýafstaðinna kosninga til Alþingis.“

Spurður hvort vandræðagangurinn í kringum vöruhúsið í Breiðholti hafi áhrif á fylgið svarar hann: „Ég held að þetta mál hafi eflaust áhrif á stöðu fylgisins að einhverju leiti. Verst er þó þá að þetta er mál sem við í Framsókn berum enga ábyrgð á – en fáum í fangið að bæta úr.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.